Skoðun

Að fara í stríð við sjálfan sig

Rakel Hinriksdóttir skrifar

„Hvern dag sem þú lifir, hefur þú áhrif á veröldina. Þú hefur val um það, hver þau áhrif eru.“

Þessi orð Jane Goodall eru kannski þau mikilvægustu sem við getum tileinkað okkur í umgengni okkar við náttúruna, samfélagið og hvert annað. Ábyrgðin liggur einungis hjá okkur sjálfum. Við gætum eytt tímanum í að setja út á aðra og benda á það sem stór fyrirtæki, stjórnvöld eða þjóðfélagshópar ættu að vera að gera til þess að sporna við hnignun lífríkisins og loftslagsbreytingum, en það er ef til vill bara forðun.

Jane lést fyrir skömmu, 91 árs að aldri, eftir langa og viðburðaríka ævi sem vísindakona og baráttumanneskja fyrir náttúru og lífríki. Hún náði til fólks um allan heim og sýndi í verki hvað manneskjan er í raun og veru samofin öllu öðru lífi á jörðinni. Hennar skilaboð voru í raun einföld: Að rækta tengslin við náttúruna og Jörðina, lifa hvern dag í hófsemi, mildi, með virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum og bera ábyrgð á eigin neyslu og vali hvern einasta dag. Hún skammaði ekki, þóttist ekki vita allt og af henni geislaði umhyggja. Mannvera í sinni tærustu mynd.

Leggur ekkert inn, tekur bara út

Við eigum það til að setja okkur á háan hest, viljum móta Jörðina eftir okkar höfði og höldum að hún geti veitt okkur endalausar auðlindir og orku til þess að líf okkar geti verið gott. En staðreyndin er sú að Jörðin er ekki botnlaus brunnur sem hægt er að ganga um eins og okkur sýnist. Frá árinu 1970 hefur villtu dýra- og plöntulífi hnignað um 73%, samkvæmt skýrslu World Wildlife Fund. Það er okkar sök, það fer ekki á milli mála.

Hér heima glymja háværar raddir um allt. Orkuskortur. Græn orka. Við verðum að búa til græna orku til þess að komast nær kolefnishlutleysi, og það helst í gær. Og hvernig ætlum við að gera það? Jú, virkjum fallvötnin okkar, drekkjum stórum svæðum undir lón og setjum öll vistkerfi fljótanna í uppnám. Byggjum vindmyllur og vonum bara að hafernir og aðrir fuglar hafi vit á að færa sig annað eða fljúga hærra. Það er meira en nóg til af öllu sem til þarf á Íslandi. Þó að við fórnum vistkerfunum sem hafa lifað í jafnvægi á virkjunarsvæðum hingað til, þá gerir það varla neitt til.

En hvernig í ósköpunum bjargar maður einhverju með því að eyðileggja það meira?

Ræður skammtímahugsun ferðinni?

Er kannski, mögulega, verið að nota hlýnun jarðar og loftslagsvandann til þess að fá leyfi til þess að skemma meira? Græða meira og belgja út vel valda vasa bæði hérlendis og erlendis? 85% af orku sem við erum að búa til nú þegar, fer rakleitt til stóriðju og gagnavera. Jú, einhverjir fá vinnu, og hagvöxturinn gleðst. En svo er verksmiðjunni lokað. Einhvern tímann gerist það, og lítil samfélög sem hafa reitt sig á hana lamast.

Margir halda að það sé ekkert mál að stífla fljót. Þetta er bara rennandi vatn. Sumir ganga svo langt að horfa á beljandi stórfljót og sjá bara tapaða orku og tapaðan gróða, að leyfa slíku fljóti að renna óbeisluðu. Aðeins þriðjungur af ám og fljótum heimsins renna frjálst og þeim fer ört fækkandi. Reynslan sýnir að virkjun í á, hefur gríðarleg áhrif á margt - fiskarnir geta hætt að koma upp árnar, til dæmis. Framburður árinnar breytist og hefur áhrif á landslagið. Virkjunin raskar jafnvægi vatnasvæðisins, sem hefur fengið að vera ósnert í þúsundir ára.

Á Íslandi eigum við ekki óteljandi fljót og vatnsföll. Í heiminum sem við lifum í núna, þar sem líffræðilegum fjölbreytileika fer hnignandi með ógnarhraða, er á sem rennur óbeisluð gífurlega dýrmæt í stóra samhenginu.

Út í veður og vind

Vindmylluhavaríið er svo algjörlega óþarfi á landi eins og okkar, en á Íslandi eru 43% af öllum ósnortnum víðernum í allri Evrópu. Það er fjársjóður sem við eigum að vera stolt af, og í mínum villtustu draumum skiljum við það öll og tökum höndum saman um að vernda þessi svæði. Hálendið okkar, jöklana, óbyggðu skagana, dalina og fjöllin. Vindmyllur sem á að reisa á Íslandi eru til dæmis um 160 metra háar, eða u.þ.b. tvær Hallgrímskirkjur (a.m.k. þær sem á að reisa í Garpsdal). Þær sjást um óravegu og þar með er ekki lengur hægt að tala um ósnortin víðerni, ef það sést til mannvirkja.

Svo eru vindmyllurnar svarnir óvinir fuglalífs - og við erum nú þegar á hálum ís gagnvart fuglunum sem ungt eyland út á ballarhafi. Hér eru aðeins 300 tegundir fugla sem eru ýmist far- eða staðfuglar en þau lönd í heiminum sem hýsa hvað flestar fuglategundir eru með hátt í 2.000 tegundir á sínum lista. Við erum mikilvægur áfangastaður fyrir ýmsa farfugla sem eru í útrýmingarhættu og höfum gert alþjóðlega samninga þar sem við lofum að vernda þessar tegundir. Hafernirnir okkar eru líka mjög viðkvæmur stofn og ansi stutt síðan þeir voru í mikilli útrýmingarhættu. Engan langar að vakna upp við það að heiðlóan hætti að syngja inn vorið.

Stækkum gullnu regluna

Ég byrjaði þennan pistil á því að vitna í Jane Goodall. Gullnu regluna hennar. Þetta er náttúrulega ekki hin kristna gullna regla sem við lærðum mörg hver í sunnudagaskólanum - en nátengd henni. Í rauninni er þetta bara gullna reglan í víðari merkingu. Komdu fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig - nema núna á hún ekki bara við um samferðarfólk okkar, heldur náttúruna líka. Allt og öll sem búa saman á Jörðinni.

Jane talar um valið. Val sem við höfum alla daga, um það hvernig við komum fram við umheiminn. Mitt val er að vera náttúruverndarsinni. Ég tek líka fullt af öðrum ákvörðunum allan daginn, alla daga, og oft eru þær ekki skynsamlegar þó ég reyni að gera mitt besta.

Náttúran þarf raddir

Þegar kemur að náttúru Íslands, þá er mitt val að vernda hana. Eins og ég kom inn á í pistli þessum á hún undir högg að sækja, og þarf svo sannarlega á því að halda að fleiri velji að standa með henni í verki. Í heimi fullum af upplýsingaóreiðu og skautun er skiljanlegt að það sé erfitt að taka afstöðu, það er auðveldara að loka augunum fyrir stórum ákvörðunum og vona það besta. En einn daginn gætum við vaknað upp og það eru stíflur í öllum fljótum. Hvergi hægt að ganga um hálendið án þess að sjá glitta í vindmyllu. Engin lóa að kveða burt snjóinn. Eins og æðibunugangurinn í stjórnvöldum og hagvaxtarhjólunum er núna, er þetta því miður ekki útilokuð sviðsmynd.

Vegna þess að þessi öfl fá aldrei nóg. Aldrei.

Veldu náttúruna alla daga

Mig grunar að á Íslandi sé náttúruvernd okkur samofin inn að hjartarótum, þó margir hafi eflaust líka praktíska hugsun að leiðarljósi. Náttúruvernd snýst ekki um að fordæma allar framkvæmdir alls staðar, heldur forgangsröðun, varfærni og að nýta það sem nú þegar er búið að gera. Það er svo stutt síðan við lifðum sem eitt með landinu og þurftum að bjarga okkur sjálf á þessari eyju. Skapgerð okkar er ýmist hálendisþoka, dýrmætir sólargeislar, stormur eða ljúfur sunnanblær. Styrkinn sækjum við í fjöllin, frelsið í fossana og hugmyndaflæðið í rennandi fljótin.

Við höfum val um að standa með þessum fjársjóði, og nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að fleiri stígi upp og velji verndun í verki. Það þarf ekki að vera stórt. Styrktu náttúruverndarsamtök. Skrifaðu undir undirskriftarlista náttúruverndarsamtaka ef þú ert sammála. Hugsaðu um náttúruvernd þegar þú kýst fulltrúa á þing eða í sveitarstjórn. Láttu þig varða um framkvæmdir og verkefni í þinni heimabyggð sem ganga á náttúruna og notaðu röddina þína. Veldu hófsemi, mildi og virðingu fyrir náttúrunni á hverjum degi. Farðu út í íslenska náttúru þegar þú getur og njóttu hennar í þakklæti.

Ég lýk þessum pistli á tilvitnun í aðra dýrmæta vísindakonu sem er horfin af sjónarsviðinu, en áhrifa hennar gætir enn víða. Rachel Carson var bandarískur sjávarlíffræðingur, náttúruverndarsinni og rithöfundur. Hún þreyttist ekki á að vara við afskiptum og inngripum mannsins í náttúruleg kerfi. Hún sagði: „A war against nature is a war against ourselves.

„Að segja náttúrunni stríð á hendur, er að fara í stríð við sjálfan sig.“

Höfundur er formaður SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi.


Á laugardaginn kemur, 18. október, stendur Landvernd fyrir viðburðinum “Rammaáætlun í ljósi reynslunnar” ásamt fleiri náttúruverndarasamtökum í Veröld, húsi Vigdísar. Þar verður rætt um rammaáætlun sem stjórntæki, og á hvaða vegferð við erum með hana. Mikil vinna fagfólks á sviði náttúruvísinda við flokkun virkjunarkosta rammaáætlunar fær ekki sama hljómgrunn og áður hefur verið.




Skoðun

Sjá meira


×