Skoðun

Ís­land fyrst

Kjartan Magnússon skrifar

Hvernig stendur á því að jafn sjálfsagður hlutur og Ísland fyrst vefst svo fyrir mönnum sem raun ber vitni? Að menn skuli keppast við að tortryggja það sem ætti að vera sjálfgefið? Er það vegna þess að hugmyndin er of sjálfsögð til að hægt sé að gagnrýna hana efnislega og því þarf að skrumskæla hana?

Ísland fyrst er ekki merki um skeytingarleysi gagnvart umheiminum heldur áminning um að frumskylda ríkisins er að standa vörð um hagsmuni, velferð og öryggi eigin borgara. Krafa um að hlúa fyrst að innviðum er ekki afneitun á alþjóðlegri samvinnu heldur rökrétt forgangsröðun. Ísland hefur sem smáríki takmarkaða burði, því skiptir höfuðmáli að fjármunir séu vel nýttir, bæði innanlands og utan.

Íslenska ríkið er ekki öllum skuldbundið í sama mæli og sumum alls ekki. Þegar ríkið fer að starfa eins og alþjóðleg góðgerðasamtök og stjórnmálamenn álíta sig fulltrúa heimsins en ekki þjóðarinnar þá er ruglað saman kristnum siðaboðskap og pólitískri hugmyndafræði. Boðið um að elska náunga sinn snýst um sjálfviljuga miskunn einstaklinga en ekki opinbera stefnu sem fjármögnuð er með skattheimtu.

Krafan um Ísland fyrst endurspeglar það rof sem hefur myndast milli almennings og valdhafa, almennings og fjölmiðla, almennings og stofnana. Á undanförnum áratugum hafa stjórnmál á Vesturlöndum snúist æ minna um að leysa raunveruleg vandamál en sífellt meira um dyggðaskreytingar á alþjóðlegum vettvangi. Það er engin tilviljun að traust á stjórnmálum hefur dvínað. Almenningur upplifir að eigin hagsmunir séu látnir víkja fyrir óljósum alþjóðlegum markmiðum. Í stað þess að taka hinn almenna borgara alvarlega hefur elítan brugðist við með því að gera lítið úr honum og áhyggjum hans, hann er afskrifaður sem öfgafullur, afturhald eða ógn við lýðræðið. Það er einmitt slík firring sem grefur undan trausti til ríkisins og lýðræðisins.

Ísland fyrst er ekki bara krafa um forgangsröðun, það er ákall til yfirvalda um að hlusta á landann. Að stjórnmála- og embættismenn rifji upp tilgang íslenska ríkisins, hverjum þeir eru skuldbundnir og hverra hagsmuna þeim ber að gæta.

Höfundur er varaformaður ungliðahreyfingar Miðflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×