Fótbolti

NRK um Sæ­dísi í kvöld: Grét sáran eftir að hafa „misst hausinn gjör­sam­lega“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir var í sviðsljósinu í Meistaradeildarleik kvöldsins.
Íslenska landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir var í sviðsljósinu í Meistaradeildarleik kvöldsins. Getty/Molly Darlington/

Íslenska landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir gerði slæm mistök í tapleiknum á móti Wolfsburg í Meistaradeildinni í kvöld og norska ríkisútvarpið gerir mikið úr mistökum hennar á heimasíðu sinni.

„Á meðan flestir ræddu um umdeilt sigurmark Wolfsburg gekk niðurbrotin Sædís Rún Heiðarsdóttir af velli, vitandi að hún hafði gefið þýska liðinu fyrsta markið,“ segir í frétt NRK.

„Auðvitað var þetta mjög leiðinlegt. Ég hafði spilað góðan leik og svo kom þessi slæma sending til baka og hún komst inn fyrir og skoraði. Þetta er hluti af fótboltanum. Maður fær refsingu fyrir að gera mistök. Þetta var bara slæm sending, því miður. Svona er þetta bara,“ sagði Sædís Rún Heiðarsdóttir, leikmaður Vålerenga, í samtali við NRK eftir 1-2 tap gegn Wolfsburg í Meistaradeildinni í kvöld.

Frétt NRK um Sædísi Rún Heiðarsdóttur í kvöld.NRK Sport

Þarna voru 57 mínútur liðnar af leiknum en Sædís sendi þá lausa sendingu til baka. Boltinn endaði hjá Lineth Beerensteyn og hollenski landsliðsframherjinn kom gestunum yfir.

Þetta er algjörlega glapræði hjá Heiðarsdóttur. Þetta var snemmbúin jólagjöf, maður getur ekki hagað sér svona á þessu stigi,“ sagði Carl-Erik Torp, fótboltasérfræðingur NRK, þegar hann sá sendinguna.

„Ég get verið alveg sammála honum um það. Þetta var gjöf, því miður varð það svo. Í svona stórum leik má maður ekki gera svona mistök eins og ég gerði. En ég mun læra af þessu. Það get ég sagt,“ sagði Sædís.

„Mér fannst þetta vera jafn leikur, eiginlega allan leikinn. Þess vegna var þetta extra leiðinlegt, en líka extra gott að svara fyrir sig. Svona er fótboltinn. Maður verður að læra hratt og læra að lifa með þessu,“ sagði Sædís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×