Körfubolti

Bíl­stjóri grýttur til dauða eftir körfuboltaleik

Sindri Sverrisson skrifar
Grjóti var kastað í gegnum rúðu rútunnar með þeim afleiðingum að bílstjóri lést.
Grjóti var kastað í gegnum rúðu rútunnar með þeim afleiðingum að bílstjóri lést.

Ítalir eru í áfalli eftir að rútubílstjóri stuðningsmanna körfuboltaliðs lést vegna grjóts sem kastað var í hann á heimleið eftir leik í gær.

Reuters fjallar um þetta og segir að rúta full af stuðningsmönnum Pistoia hafi verið á heimleið eftir útileik við Real Sebastiani Rieti, sem Pistoia vann 88-73.

Grjóti og múrsteinum var kastað í rútuna þegar hún var komin rétt út fyrir bæjarmörk Rieti, og fór steinn í gegnum framrúðuna og í annan bílstjóranna um borð. Hann lést skömmu síður, þrátt fyrir tilraunir til endurlífgunar.

Samkvæmt ítölskum miðlum er ekki alveg á hreinu strax hvort þeir sem köstuðu steinunum voru stuðningsmenn Rieti.

„Þeir eru morðingjar“

Forsætisráðherrann Giorgia Meloni segir að um skelfilegar fréttir sé að ræða.

„Þessi árás er ólíðandi og ofbeldið algjörlega tilhæfulaust,“ skrifaði Meloni á Twitter.

Gianni Petrucci, forseti ítalska körfuboltasambandsins, sagði að unnið yrði með yfirvöldum að því að ákveða hver viðbrögðin yrðu.

„Þetta snýst ekki um körfubolta. Þetta eru glæpamenn. Þeir eru morðingjar. Fólk sem á sér hvorki nútíð né framtíð,“ sagði Petrucci við RAI.

Ofbeldi í tengslum við fótbolta hefur um langt árabil verið stórt vandamál á Ítalíu. Í apríl slösuðust 13 lögreglumenn í átökum stuðningsmanna Roma og Lazio fyrir grannaslag liðanna, og í maí var 26 ára stuðningsmaður Atalanta stunginn til bana í átökum stuðningsmanna Atalanta og Inter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×