Sport

Dæmdur úr leik á grátlegan hátt á HM í bak­garði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pólverjanum Bartosz Fudali var ekki sýnd nein miskunn.
Pólverjanum Bartosz Fudali var ekki sýnd nein miskunn. @bigdogbackyardultra/@BartoszFudali

Örlögin voru afar grimm á heimsmeistaramótinu í bakgarðshlaupum fyrir mann sem var búinn að hlaupa í tvo og hálfan sólarhring og virtist eiga nóg eftir.

Þorleifur Þorleifsson var fulltrúi Íslands á heimsmeistaramótinu í bakgarðshlaupum í ár og lauk keppni eftir tuttugu hringi. Hlutirnir gengu ekki upp hjá okkar manni í bleytunni.

@thorleifur.thorleifsson

Þorleifur vakti hins vegar athygli á grátlegum örlögum eins keppanda á mótinu sem var búinn að hlaupa þrefalt meira en Þorleifur þegar hann var dæmdur úr leik.

Hér erum við að tala um Pólverjann Bartosz Fudali. Fudali var búinn að klára hring númer 61 og það meira en tuttugu mínútum áður en klukkutíminn kláraðist.

Hann gerði hins vegar afdrifarík mistök og var ekki sýnd nein miskunn af dómurum í keppninni.

Fudali fór ekki yfir marklínuna þegar hann kláraði hringinn heldur fór hann beint inn í tjaldið sitt. Hann fékk enga aðstoð á þessum tímapunkti.

Seinna fattaði Fudali að hann hefði ekki farið í gegnum markið, fór út úr tjaldinu sínu og fór í gegnum markið. Þá átti hann enn tuttugu mínútur upp á að hlaupa.

Hann hafði aftur á móti brotið reglurnar. Tjaldið hans var utan brautar og samkvæmt reglum keppninnar mega keppendur ekki yfirgefa brautina fyrr en þeir klára hringinn.

Fudali hafði brotið reglurnar og var því dæmdur úr leik. Grátlegur endir fyrir öflugan mann sem átti miklu meira eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×