Enski boltinn

Segir sitt fyrrum lið í krísu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Carragher er ekki sáttur.
Carragher er ekki sáttur. AFP/EPA

Jamie Carragher, fyrrverandi varnarmaður Liverpool og núverandi sparkspekingur, segir sitt fyrrum lið í krísu. Lærisveinar Arne Slot töpuðu 3-2 fyrir Brentford um liðna helgi.

Englandsmeistararnir hafa tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum í öllum keppnum. Eini sigurinn kom gegn Eintracht Frankfurt í Meistaradeild Evrópu. Þar á undan hafði liðið tapað fyrir Manchester United, Chelsea, Galatasaray og Crystal Palace.

Um liðna helgi lá liðið svo gegn Brentford, um var að ræða fjórða tapið í röð í ensku úrvalsdeildinni.

Hinn 47 ára gamli Slot segir lið sitt ekki hafa fundið út hvernig eigi að díla við lið sem liggja til baka og spili beinskeytt. Carragher tekur undir það og segir sitt fyrrum lið þurfa að spila af meiri krafti ætli það sér að snúa blaðinu við.

„Það verður mikið af spurningum frá leikmönnum, starfsliði og fólkinu þar fyrir ofan. Þegar við horfum á hversu miklu félagið eyddi í sumar þá er ljóst að það var búist við mun betri árangri.“

„Liverpool þarf að skoða líkamlegan styrk og meðalhæð leikmanna því sem stendur eru þeir ekki með nægilegan styrk né hæð,“ bætti Carragher við.

Liverpool er í 7. sæti eftir níu umferðir með 15 stig, sjö minna en topplið Arsenal. Þá er liðið í 10. sæti Meistaradeildarinnar með sex stig að loknum þremur umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×