Fótbolti

Lands­leiknum af­lýst og fram­haldið ó­ljóst

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mikill snjór er á Laugardalsvelli líkt og víðar á suðvesturhorninu.
Mikill snjór er á Laugardalsvelli líkt og víðar á suðvesturhorninu. Vísir/Vilhelm

Landsleik Íslands og Norður-Írlands í Þjóðadeild kvenna í fótbolta hefur verið aflýst. Hann mun ekki fara fram í Kórnum eins og vonir stóðu til um. Framhaldið er til skoðunar.

KSÍ sendi frá sér tilkynningu á miðla sambandsins í dag eftir athugun á aðstæðum í Kórnum ásamt fulltrúm UEFA og norður-írska knattspyrnusambandsins. Niðurstaðan eftir þá skoðun er sú að leikurinn fari ekki fram þar en þegar var ljóst að hann færi ekki fram á Laugardalsvelli.

Í stuttorðri yfirlýsingu KSÍ segir að staðan sé til skoðunar en Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði fyrr í dag að morgundagurinn kæmi til greina.

„Verið er að skoða stöðuna og framhaldið og mun KSÍ birta tilkynningu þess efnis á sínum miðlum um leið og niðurstaða liggur fyrir,“ segir í yfirlýsingu KSÍ.

Leikmenn íslenska landsliðsins sem spila fyrir erlend félagslið áttu bókuð flug til síns heima á morgun og sömu sögu að segja af öllum í norður-írska teyminu. Ljóst er að frestun leiksins mun bera með sér töluverðan kostnað fyrir bæði knattspyrnusambönd.

Yfirlýsing KSÍ:

Ákveðið hefur verið að leikur A landsliðs kvenna við Norður-Írland, sem fara átti fram á Laugardalsvelli í dag, þriðjudag kl. 18:00, verði ekki leikinn í dag. Þessi ákvörðun er tekin af Knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA), í samráði við KSÍ og Norður-írska knattspyrnusambandið (IFA).

Verið er að skoða stöðuna og framhaldið og mun KSÍ birta tilkynningu þess efnis á sínum miðlum um leið og niðurstaða liggur fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×