Íslenski boltinn

„Hefði séð eftir því alla ævi“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari ÍA, þurfti að breyta ýmsu svo starf hans á Akranesi í sumar gengi upp. Hann hélt liðinu í Bestu deildinni og hefur framlengt samning sinn til tveggja ára.
Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari ÍA, þurfti að breyta ýmsu svo starf hans á Akranesi í sumar gengi upp. Hann hélt liðinu í Bestu deildinni og hefur framlengt samning sinn til tveggja ára. Vísir/Einar

Fjölskylda Lárusar Orra Sigurðssonar þurfti að færa ýmsar fórnir svo hann gæti gripið tækifærið að taka við fótboltaliði ÍA á miðju sumri. Það var tækifæri sem hann var ekki viss að myndi bjóðast aftur og hann nýtti það sannarlega vel.

Lárus tók við liði ÍA í lok júní en Skagamenn voru þá á botni deildarinnar. ÍA var þá enn límt við botninn og sjö stigum frá öruggu sæti þegar aðeins átta leikir voru eftir. Þá tók við ótrúleg hrina þar sem ÍA vann sex af síðustu átta til að tryggja sæti sitt.

„Ég gerði mér alveg grein fyrir verkefninu, held ég. Maður vissi að þetta yrði ægilegt verkefni, ekki að það yrði ómögulegt að halda liðinu uppi, heldur bara hversu mikil vinna þetta yrði. En ég held að enginn einn maður hefði nokkurn tíma getað haldið þessu liði uppi ef félagið væri ekki á góðum stað,“ segir Lárus Orri í samtali við íþróttadeild.

„Hlutirnir voru bara í flottu standi. Ég tek við öllu því hóli sem ég fæ fyrir þetta en ég deili því með öllu fólkinu uppi á Skaga,“ bætir hann við.

Nýtt starfsumhverfi

En þegar Lárus tók við hafði hann ekki þjálfað fótboltalið í sjö ár í hröðum fótboltaheiminum. Það er því vert að spyrja hvort eitthvað hafi komið honum á óvart í upphafi.

„Heilt yfir er fótboltinn alltaf eins. Það eru snillingar sem búa til ný nöfn yfir allskonar hluti en þetta er raunverulega sami hluturinn. Að fara aftur inn á æfingavöllinn, maður var smá ryðgaður í því,“

„En það sem hjálpaði mér mjög þar er gott þjálfarateymi. Ég hef aldrei þjálfað svona þar sem ég sem aðalþjálfari get staðið til hliðar og fylgst með meðan aðrir sjá um æfinguna. Dean Martin, Stebbi Þórðar (Stefán Þór Þórðarson) og Dino Hodzic sjá um æfinguna og ég get tekið yfir þann hluta sem ég vil sinna. Að því leytinu til var auðvelt að stíga inn í þetta,“ segir Lárus Orri.

Hefði séð eftir því alla ævi

Lárus hefur verið búsettur á Akureyri og þurfti eitthvað að flakka á milli í sumar þar sem hann rekur fyrirtæki í heimabænum ásamt fjölskyldu sinni, og var þörf á ákveðnum fórnum vegna þjálfarastarfsins hjá liði sem barðist fyrir lífi sínu.

„Ég þurfti að setja svolitlar byrðar á fjölskylduna,“ segir Lárus og hlær. „Hún hjálpaði mér í þessu. Ég á konu sem hefur þvælst með mér í gegnum allan þennan fótboltaferil. Hún er farin að þekkja þetta ansi vel, svo þetta kom henni ekki á óvart held ég.“

Lárus Orri gat ekki sleppt tækifærinu að komast aftur í þjálfun eftir átta ára hlé, þá sérlega til að taka við Skagaliði sem hann ber miklar tilfinningar til.Vísir/Einar

„Það hjálpuðust allir að. Við erum með lítið fjölskyldufyrirtæki þarna fyrir norðan og okkar langstærsti kúnni, sem við höfum unnið með í kringum tíu ár, sýndi þessu mikinn skilning og hjálpaði okkur með þetta líka,“ segir Lárus sem gat hreinlega ekki sleppt tækifærinu sem bauðst.

„Ef ég hefði sleppt þessu hefði ég séð eftir því alla ævi, held ég,“ segir Lárus.

Fjölskyldan á inni

Lárus Orri fór eitthvað fram og til baka milli Akraness og Akureyrar í sumar og sinnti vinnu fyrir fjölskyldufyrirtækið á meðan þjálfuninni stóð en aðrir í fjölskyldunni stigu upp á meðan hann bjargaði Skagamönnum frá falli fyrir sunnan.

„Ég var mestmegnis hérna fyrir sunnan og vann tölvuvinnuna í kringum fyrirtækið. Þegar tækifærið gafst skaust ég norður. En þegar þú ert að þjálfa geturðu ekki beðið alla að leggja sig 100 prósent fram og sleppt sjálfur æfingu. Þetta var mikið púsl en gekk vel,“ segir Lárus.

Á fjölskyldan þá mikið inni eftir þetta sumar?

„Já, heldur betur,“ segir Lárus Orri og hlær. „Núna er að bæta upp fyrir það og gera eitthvað skemmtilegt saman.“

Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í heild sinni í spilaranum að neðan.

Klippa: Lárus Orri gerir upp ótrúlegt sumar á Skaganum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×