Fótbolti

Bað alla nema þjálfarann af­sökunar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það voru læti eftir leik Real Madríd og Barcelona.
Það voru læti eftir leik Real Madríd og Barcelona. Alberto Gardin/Getty Images

Vinícius Júnior hefur beðið stuðningsfólk Real Madríd afsökunar eftir frekjukast sitt þegar hann var tekinn af velli gegn Barcelona á dögunum. Raunar hefur hann beðið nær alla aðra en Xabi Alonso, þjálfara Real, afsökunar.

Vængmaðurinn missti hausinn algjörlega þegar hann var tekinn af velli í 2-1 sigri Real á Barcelona í uppgjöri toppliða La Liga, efstu deild spænska fótboltans. Í kjölfarið fóru ýmsar sögur á kreik að Brasilíumaðurinn myndi heimta að vera seldur þegar félagaskiptaglugginn opnar á nýju ári.

„Í dag vil ég biðja alla Madridistas afsökunar á hegðun minni þegar ég var tekinn af velli í Clásico,“ sagði Viní Jr. á X-síðu sinni, áður Twitter.

„Líkt og ég gerði í persónu á æfingu í dag vil ég biðja liðsfélaga mína, félagið og forsetann afsökunar.“

„Þar sem ég vil vinna og hjálpa liði mínu þá blossar ástríðan einstaka sinnum upp án þess að ég fái hana stöðvað. Keppnisskap mitt kemur frá ást minni á félaginu og öllu því sem það stendur fyrir.“

Hinn 25 ára gamli leikmaður kom frá Flamengo í heimalandi sínu til Madrídar árið 2018. Alls hefur hann skorað 111 mörk í 335 leikjum og unnið bæði La Liga sem og Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×