Erlent

Sjö hundruð drónum og eld­flaugum skotið að Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Eftirmálar einnar árásar í Úkraínu í nótt.
Eftirmálar einnar árásar í Úkraínu í nótt. Almannavarnir Úkraínu

Rússar gerðu í nótt og í morgun umfangsmiklar árásir á orkuinnviði í Úkraínu, eins og þeir hafa reglulega gert á undanförnum vikum. Árásirnar leiddu til rafmagnsleysis víða um landið. Þær beindust þó ekki eingöngu gegn orkuinnviðum og féllu að minnsta kosti þrír í þeim, þar á meðal sjö ára stúlka.

Börn eru einnig sögð meðal þeirra sautján sem særðust í árásunum. Rússar notuðust samkvæmt Úkraínumönnum við 653 dróna af ýmsum gerðum og 52 eldflaugar. Þar á meðal voru níu skotflaugar.

Eins og fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar keyra innviðir úkraínskra borga á miðstýrðum kerfum. Þegar rafmagnið fer af fer vatnið af einnig sem og kynding og skólpkerfi.

Með þessum árásum vilja Rússar draga úr baráttuvilja úkraínsku þjóðarinnar og í senn valda skaða á hergagnaframleiðslu og annarri hernaðartengdri starfsemi.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, líkir árásunum við hryðjuverk.

Ein árásanna var fönguð á myndband. Það sýnir hvernig sjálfsprengidróna var flogið á bensínstöð í borginni Sumy, þar sem nokkrir voru að dæla bensíni á bíla sína. Fjórir eru sagðir hafa særst í árásinni og þar einn alvarlega.

Sambærilegar árásir hafa ítrekað verið gerðar í Úkraínu. Rússar voru nýverið sakaðir af Sameinuðu þjóðunum um markvissar drónaárásir gegn óbreyttum borgurum í Úkraínu. Þá hafa rússneskir hermenn margsinnis birt myndbönd af því þegar þeir varpa sprengjum á óbreytta borgara úr drónum.


Tengdar fréttir

Prófuðu annað kjarnorkuknúið vopn

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, opinberaði í morgun að Rússar hefðu gert aðra tilraun með kjarnorkuknúið vopn. Það gerði hann í heimsókn til særðra hermanna á sjúkrahúsi í Moskvu í morgun en umrætt vopn er eins konar tundurskeyti sem á að geta siglt endalaust og borið kjarnorkuvopn að ströndum óvinveittra ríkja.

Sakar Evrópu um stríðsæsingu

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sakaði í morgun ríki Evrópu um stríðsæsingu. Ráðherrann sagði að Rússar hefðu engan áhuga á að ráðast á nokkurt ríki í Atlantshafsbandalaginu (NATO) eða Evrópusambandinu en að NATO vildi tryggja sér yfirráð yfir Evrasíu.

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: Trump stendur loks við stóru orðin

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur beitt tvö stærstu olíufyrirtæki Rússlands refsiaðgerðum, sem gætu gert fyrirtækjunum erfitt að selja olíu til ríkja eins og Indlands og Ungverjalands. Trump hefur hótað aðgerðum sem þessum um langt skeið en aldrei tekið í gikkinn fyrr en nú en aðgerðirnar gætu komið mjög niður á tekjum rússneska ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×