Erlent

Demó­kratar vilja yfir­heyra Andrew

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Andrew Mountbatten Windsor, sem áður var Andrés prins.
Andrew Mountbatten Windsor, sem áður var Andrés prins. Getty

Fjórir Demókratar í rannsóknarnefnd á vegum bandaríska þingsins sem fer með rannsókn Epstein málsins, vilja fá að yfirheyra Andrew Mountbatten Windsor um tengsl hans við Epstein. Nefndinni er stýrt af Repúblikönum sem hafa ekki gefið upp hvort þeir taki undir kröfuna.

Andrew Mountbatten Windsor var í vikunni sviptur prins-titli sínum og þurfti að yfirgefa hið sögulega Royala Lodge í grennd við Windsor kastala, hvar hann hefur búið síðustu áratugi.

Ástæðan er tengsl Andrésar við kynferðisglæpamanninn Jeffrey Epstein og ásakanir á hendur Andrési þess efnis að hann hafi brotið gegn að minnsta kosti einni konu, Virginíu Giuffre, þegar hún var táningur.

Suhas Subramanyam, þingmaður Demókrata í Bandaríkjunum, segir við BBC að nafn Andrésar hafi oft komið upp í tengslum við rannsókn Epstein málanna.

„Ef hann vill hreinsa nafnið sitt, vill rétta sinn hlut og sýna fórnarlömbunum skilning, þá mun hann stíga fram. Nafn hans hefur komið upp í samræðum við mörg fórnarlömbin.“

„Hann hefur greinilega vitneskju um þessi mál og við viljum bara að hann stigi fram og segi okkur það sem hann veit.“

„Við ættum að rannsaka alla kima málsins sem við getum. Hvort sem menn eru Bandaríkjamenn eða ekki,“ segir Suhas Subramanyam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×