Skoðun

Tími til kominn

Berglind Friðriksdóttir, Gunnsteinn R. Ómarsson, Hrönn Guðmundsdóttir, Sigfús Benóný Harðarson og Vilhjálmur Baldur Guðmundsson skrifa

- til samstarfs um uppbyggingu hjúkrunarheimilis í Þorlákshöfn

Það var ánægjulegt að lesa grein meirihluta Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ölfuss á dögunum þar sem sett er fram prýðilega rökstudd og metnaðarfull hugmynd um byggingu hjúkrunarheimilis í Þorlákshöfn. Nýjan tón kveður við í umræðunni sem er að kallað sé eftir samstöðu um þetta mikilvæga samfélagsmál og minnihlutinn í bæjarstjórn Ölfuss tekur heilshugar undir það.

Við viljum hjúkrunarheimili í Þorlákshöfn

Við í minnihlutanum deilum þeirri skoðun að uppbygging hjúkrunarheimilis í Þorlákshöfn sé bæði tímabær og nauðsynleg. Þorlákshöfn er stærsti þéttbýliskjarni á Suðurlandi þar sem slíkt heimili er ekki fyrir hendi, og með ört vaxandi íbúafjölda er ljóst að þörfin fer sívaxandi. Auk þess er Þorlákshöfn staðsett miðsvæðis á suðvesturhorni landsins og getur þjónustað stórt svæði með góðu móti og því kjörinn kostur til slíkar uppbyggingar.

Í grein meirihlutans er skorað á þingmenn kjördæmisins að styðja við verkefnið og það er vissulega mikilvægt. Ekki er síður mikilvægt er að leita eftir samstarfi við önnur sveitarfélög á Suðurlandi, sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta í þessu máli og svo mörgum öðrum. Slík samvinna myndi styrkja verkefnið gagnvart samtalinu við ríkisvaldið og skapa breiðari stuðning. Í opinberri stjórnsýslu eru hins vegar verkferlar sem verður að virða og rétt leið í þessu verkefni er að bæjaryfirvöld nái samtali við ráðherra málaflokksins áður en áskorun til þingmanna er sett fram. Þetta samtal hefur ekki farið fram og verður að eiga sér stað hið fyrsta.

Samstarf er lykill að árangri

Því miður hefur þróunin verið sú undanfarin kjörtímabil að meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Ölfusi hefur ekki sýnt mikinn samstarfsvilja, hvorki gagnvart minnihlutanum í bæjarstjórn sveitarfélagsins né samstarfssveitarfélögum innan SASS. Nú gefst tækifæri til að snúa við blaðinu og leggja grunn að nýjum vinnubrögðum þar sem traust og gagnkvæm virðing ráða för.

Samstarf er ekki veikleiki, samstarf er styrkur sem byggir upp samfélög. Uppbygging hjúkrunarheimilis í Þorlákshöfn er verkefni sem krefst samstöðu, ekki sundrungar.

Tími til að byggja saman

Kjörnir fulltrúar minnihluta bæjarstjórnar sveitarfélagsins Ölfuss eru tilbúnir til samstarfs. Við viljum leggja okkar af mörkum til að Þorlákshöfn fái loksins hjúkrunarheimili sem íbúar sveitarfélagsins og nærsveita eiga skilið. Með samvinnu allra, þ.m.t. bæjarstjórnar, sveitarfélaga á Suðurlandi og þingmanna getum við gert þetta að veruleika.

Þetta er ekki verkefni einnar hreyfingar, þetta er verkefni samfélagsins alls.

  • Berglind Friðriksdóttir, bæjarfulltrúi Íbúalistans í Ölfusi
  • Gunnsteinn R. Ómarsson, varabæjarfulltrúi Framfarasinna í Ölfusi
  • Hrönn Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Framfarasinna í Ölfusi
  • Sigfús Benóný Harðarson, varabæjarfulltrúi Íbúalistans í Ölfusi
  • Vilhjálmur Baldur Guðmundsson, bæjarfulltrúi Framfarasinna í Ölfusi



Skoðun

Skoðun

Tími til kominn

Berglind Friðriksdóttir,Gunnsteinn R. Ómarsson,Hrönn Guðmundsdóttir,Sigfús Benóný Harðarson,Vilhjálmur Baldur Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×