Skoðun

Höldum fast í auðjöfnuð Ís­lands

Víðir Þór Rúnarsson skrifar

Við Íslendingar kvörtum mikið. Þrátt fyrir að við séum fremst þjóða á vísitölu mannlegrar þróunar viljum við alltaf gera betur. Þetta er einn okkar helsti styrkur. Þessi stöðugi þrýstingur um að bæta samfélagið hefur gert Ísland að einu jafnasta og best skipulagða landi heims. Þannig höfum við varðveitt einn af okkar dýrmætustu eiginleikum: auðjöfnuðinn.

Auðjöfnuður mælir dreifingu eigna og skulda milli íbúa. Íslendingar skara þar fram úr; auður okkar er einna jafnast dreifður á heimsvísu. Ef jöfnuðurinn fer að dala, legg ég til að við gerum það sem við kunnum best – kvörtum hástöfum.

Íslendingar eru ríkasta millistétt í heimi

Ísland státar af stórri, sterkri millistétt — sú efnaðasta í heimi. Það merkir þó ekki að Ísland sé ríkasta land heims á mann; fimm þjóðir standa okkur þar framar. Okkur hefur tekist að skapa ríkt land með meiri auðjöfnuð en allar sambærilega auðugar þjóðir, og mestan jöfnuð meðal Norðulandaþjóða. Skoðum þessi gögn saman:

Mynd 1: Miðgildi og meðaltal auðs (USD) per manneskju í völdum löndum (efstu fimm í miðgildi, Norðurlönd, Bandaríkin og Evrópusambandið) - Gögn frá "UBS Global Wealth Databook 2023 og 2024; Y-ás í BNA dollurum"

Eins og sjá má er Ísland ekki ríkasta land í heimi, en miðgildið sýnir að meðal-einstaklingur í íslenskri millistétt á meira en jafningjar hans annars staðar. Það er sláandi að millistéttarmaður í næst ríkasta landi Norðurlanda, Danmörku, á rúmlega helmingi minni auð en sá íslenski — og í Svíþjóð minna en fjórðung. Það er ástæða til að fagna þessu, á milli þess sem við finnum ný málefni til að kvarta yfir.

Jöfnuðurinn er ekki sjálfgefinn

Þrátt fyrir að auðjöfnuður Íslands hafi haldist stöðugur síðan um aldamótin, er hann ekki sjálfgefinn. Danmörk og Svíþjóð eru góð dæmi um þjóðir þar sem þetta hefur mikið breyst á síðustu áratugum. Í Danmörku hefur tekjujöfnuður2 minnkað á þessari öld um nær 25%. Á sama tíma hefur hins vegar auðjöfnuður3 í Danmörku aukist um ~9%.

Í Svíþjóð er sagan næstum öfug. Tekjujöfnuður hefur minnkað um aðeins 9%, og er enn hærri en í allflestum löndum heims. Hinsvegar hefur auðjöfnuður lækkað um tæp 18%. Það kemur lesanda líklegast á óvart að samkvæmt nýjustu gögnum er ekkert land í Evrópu né í Norður-Ameríku með meiri ójöfnuð á auði en Svíþjóð. Aðeins 12 lönd státa nú af meiri ójöfnuði á auði, en þau má öll finna í Afríku og Miðausturlöndum auk Brasilíu.

Þetta þýðir að sænska millistéttin hefur lítið á milli handanna, þrátt fyrir mikinn heildarauð. Stefna sem miðar eingöngu að tekjujöfnuði tryggir ekki endilega jafna eignadreifingu.

Ójafn auður hefur afleiðingar

En hefur millistétt Norðurlandanna hvort eð er ekki orðið mun ríkari á þessari öld, þrátt fyrir að auðurinn hafi skipts á færri hendur? Jú, auður millistéttar okkar og nágrannalanda hefur aukist til muna síðustu áratugi. En, ójöfn dreifing auðs er ekki aðeins siðferðilegt vandamál; hún hefur raunverulegar afleiðingar. Rannsóknir sýna meðal annars að hún[1]:

1. Dregur úr hagvexti:

a. Þegar auður safnast á færri hendur dregur úr frumkvöðlastarfi og hagvexti. Aukning um eitt staðalfrávik í auðójöfnuði getur dregið úr hagvexti um allt að 17%.

2.  Eykur kreppuhættu:

a. Þegar auðshlutdeild ríkustu 1% eykst, aukast líkur á efnahagskreppu — þó með seinkuðum áhrifum.

3. Veikir tekjugrunn ríkisins:

a. Auðugustu íbúar landa eru líklegri til að flytja fé erlendis og rýra þannig skattstofna

4.Ógnar lýðræði:

a. Stór auður í höndum fárra eykur áhrif einkafjár á stefnumótun og upplýsingaflæði, eins og er auðséð í Bandaríkjunum.

5.Skapar ójöfn tækifæri og skerðir félagslegan hreyfanleiki:

a. Þegar auður erfist innan fárra fjölskyldna dragast tækifæri annarra saman, jafnvel þar sem aðgengi að menntun er jöfn.

6.Dregur úr heilsufarslegum árangri

a. Þverþjóðlegar rannsóknir sýna að aukinn ójöfnuður tengist verri heilsufarsvísum (t.d., lægri lífslíkum), sérstaklega í ríkum löndum.

Horfum til Dana frekar en Svía

Við státum af ríkustu millistétt í heimi. Þessi grein er því ekki skrifuð með það að leiðarljósi að miklar breytingar þurfi að eiga sér stað hérlendis - aðallega urðu skrifin fyrir hendi því mér þótti gögnin um auðjöfnuð áhugaverð. Það er ekkert að því að geta orðið rík(ur), og öll hagkerfi þurfa að stuðla að því að einstaklingar sem skapa mikið virði fyrir sín samfélög séu verðlaunaðir fyrir slíkt. Þvert á móti vil ég að við fögnum núverandi stöðu. Á sama tíma er mikilvægt að muna að halda áfram að kvarta þegar það á við. Núverandi staða getur breyst á skömmum tíma.

Eins og skýrt var að ofan er Svíþjóð með tiltölulega jafnar tekjur í sínu samfélagi, en misskipting auðs er mikil. Helstu ástæður þess eru:

  1. Lágir fasteignaskattar og þök sem hlífa dýrustu eignum;
  2. Fjármagnsvænt skattkerfi sem skattleggur laun hátt en fjármagn lágt;
  3. Enginn erfða- né gjafaskattur.

Á Íslandi má sjá svipað mynstur. Við erum með lágan erfðafjárskatt (10%), flatan fjármagnstekjuskatt og stuðning sem gerir húseign að sérlega hagstæðu fjárfestingarskjóli. Aðgengi að lánsfé erfiðara og dýrara hér, sem bitnar óhlutfallslega á ungu fólki og þeim sem minna eiga. Við gætum því óafvitandi verið að feta í fótspor Svía, nema við stöndum vörð um jafnvægið.

Við getum varið þetta jafnvægi, Danmörk sýnir það. Þeir hafa haldið í erfðafjárskatt, sleppt þökum á fasteignasköttum og tekið upp stigvaxandi fjármagnstekjuskatt (1993). Stefnumótun Dana hefur ekki aðeins stöðvað frekari misskiptingu auðs á þessari öld, en einnig tekist að draga aðeins úr.

Höldum fast í auðjöfnuðinn

Ég er stoltur af því að vera Íslendingur, og hef alltaf verið. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að vera stoltur af okkar landi. Ein þeirra er að við kvörtum mikið, og þegar hlutirnir batna, finnum við nýja hluti til að kvarta yfir. Ein ástæðan er sú að á Íslandi er ‘Ameríski draumurinn’ á lífi. Auðjöfnuður og félagslegur hreyfanleiki er slíkur að við fæðumst öll með sambærileg tækifæri.

Þetta er ekki hvatning til róttækra breytinga heldur áminning: staðan getur breyst hratt. Við erum rík þjóð, ekki vegna einstaklingsauðs, heldur vegna þess að velmegunin nær vítt. Við ættum því að halda í það sem hefur gert Ísland sérstakt: að kvarta þegar jöfnuðurinn versnar, að fagna þegar hann vex — og að muna að í kvörtuninni felst sjálft varnarkerfi lýðræðisins.

Höldum fast í auðjöfnuð okkar allra.

Höfundur er með M.sc. í Management Science & Engineering frá Columbia Háskóla í New York; Bachelor í Iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands; Diplóma í Alþjóðaviðskiptum frá Stanford Háskóla í Kaliforníu. Hann vann í átta ár hjá McKinsey & Company í Svíþjóð og Danmörku.

Heimildir:


[1] Ótæmandi listi þar sem þetta er auðvitað ekki fræðigrein.




Skoðun

Skoðun

3003

Elliði Vignisson skrifar

Sjá meira


×