Sport

Upp­fyllir ósk náins vinar og skrifar undir eins dags samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rob Gronkowski er líflegur og skemmtilegur persónuleiki en hann var líka stórkostlegur leikmaður á sínum tíma.
Rob Gronkowski er líflegur og skemmtilegur persónuleiki en hann var líka stórkostlegur leikmaður á sínum tíma. Getty/John Nacion

Rob Gronkowski er einn besti innherji sögunnar og þekktastur fyrir tíma sinn hjá New England Patriots. Hann endaði hins vegar feril sinn sem leikmaður Tampa Bay Buccaneers. Nú ætlar kappinn að breyta því á fomlegan hátt áður en skórnir fara endanlega upp á hillu.

Gronkowski ætlar að skrifa undir táknrænan eins dags samning við New England Patriots á morgun svo hann geti lagt skóna upp á hillu sem leikmaður Patriots fyrir lífstíð. Hann ætlar með því að uppfylla ósk náins vinar sem lést úr krabbameini fyrr í mánuðinum.

Gronkowski, sem lék með Patriots frá 2010 til 2018 og var hluti af þremur meistaraliðum áður en hann lauk ferlinum og vann annan titil með Tampa Bay Buccaneers árin 2020–2021.

Táknræni samningurinn var hugmynd Susan Hurley en Gronkowski myndaði náin vináttubönd við hana í gegnum umfangsmikið góðgerðarstarf sitt í Nýja-Englandi. Í ágúst, þegar Gronkowski vígði nýjan leikvöll í Boston sem hann gaf 1,8 milljónir dala til, sagði hann að verkefnið væri innblásið af Hurley.

Þann dag spurði Hurley: „Getum við ekki bara gert þetta formlegt og samið við hann til eins dags svo hann geti hætt sem leikmaður Patriots?“

Eigandinn Robert Kraft, sem hafði þegar ætlað að gera þetta þegar Gronkowski yrði gjaldgengur í heiðurshöll liðsins á næsta ári, studdi þá hugmynd að flýta ferlinu og Gronkowski sagði: „Mér líst mjög vel á það og ástæðan fyrir því að við ætlum að gera þetta er vegna Susan Hurley,“ sagði Gronkowski þegar hann tilkynnti þetta á sunnudaginn þegar hann var að starfa sem sérfræðingur hjá Fox Sports.

Hurley tapaði hetjulegri baráttu við krabbamein þann 1. nóvember. Hún var 62 ára.

Gronkowski er í hundrað ára afmælisliði NFL-deildarinnar og er talinn einn besti innherji í sögu NFL. Á ellefu tímabilum í deildarkeppninni skoraði hann 92 snertimörk og bætti við fimmtán snertimörkum í úrslitakeppninni.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×