Fótbolti

Þurfa að borga háar fjár­hæðir fyrir bíla­stæði á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það vantar ekki bílstæðin í kringum stóra leikvanga í Bandaríkjunum og gott dæmi um það er MetLife-leikvangurinn í New Jersey.
Það vantar ekki bílstæðin í kringum stóra leikvanga í Bandaríkjunum og gott dæmi um það er MetLife-leikvangurinn í New Jersey. Getty/Al Bello

Það verður lítið eftir í buddunni hjá fótboltaáhugafólki sem ætlar að mæta á leiki á komandi heimsmeistaramóti í fótbolta.

HM karla í fótbolta fer fram í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada næsta sumar og Ísland á enn möguleika á því að vera meðal þátttökuþjóðanna 48.

Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) græðir ekki aðeins á miðasölu á heimsmeistaramótinu á næsta ári því bílastæðagjöld munu einnig skila miklum tekjum.

The Athletic segir frá því að staðfest sé að bílastæði nálægt sumum HM-leikvöngunum muni kosta á bilinu 75 til 175 Bandaríkjadali á dag. Verðið hækkar eftir því sem nær dregur lokum mótsins.

75 dalir eru 9500 íslenskar krónur en 175 dalir eru meira en tuttugu og tvö þúsund íslenskar krónur. Þetta bætist við rándýra miða á leikina og þá munu veitingarnar auðvitað kosta sitt.

The Athletic segir enn fremur að bílastæði og almenningssamgöngur hafi verið mikil áskorun fyrir HM-borgirnar. Margar af ellefu borgum í Bandaríkjunum sem hýsa HM-leiki skorti þá innviði sem evrópskir fótboltaaðdáendur eru vanir.

Auk þess er mikil hefð fyrir því í Bandaríkjunum að keyra sjálfur á leikvanga. Allir leikvangarnir í Bandaríkjunum sem notaðir verða á HM eru NFL-leikvangar umkringdir stórum bílastæðum.

En þessi bílastæði kosta líka í NFL-deildinni. Stutt leit sýnir að bílastæði langt frá Texas-leikvanginum fyrir leik Dallas Cowboys og Philadelphia Eagles innan skamms kostar að minnsta kosti 108 dollara. Bandaríkjamenn þekkja því vel þessa pínu að þurfa að borga háar fjárhæðir fyrir bílastæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×