Viðskipti innlent

Fundu „þjóðaröryggis-málma“ á Græn­landi

Árni Sæberg skrifar
Eldur Ólafsson er forstjóri Amaroq.
Eldur Ólafsson er forstjóri Amaroq. Amaroq

Sýnatökur íslenska námafélagsins Amaroq hafa staðfest hátt hlutfall sinks, blýs og silfurs ásamt háu hlutfalli af germanium, gallium og kadmíum, sem Evrópusambandið og Bandaríkin skilgreina sem svokallaða „þjóðaröryggis-málma“ í Black Angel námunni á Grænlandi. Jafnframt hefur félagið formlega uppfyllt öll skilyrði kaupsamnings vegna áður tilkynntra kaupa félagsins á Black Angel námunni.

„Ég er afar ánægður að kynna niðurstöður rannsókna úr Black Angel námunni. Sýnatökur staðfesta ekki eingöngu háan styrk sinks, blýs og silfurs, heldur varpa einnig ljósi á markvert magn germaníum, gallíum og kadmíum, sem ekki kom fram í eldri rannsóknum,“ er haft eftir Eldi Ólafssyni, forstjóra Amaroq, í tilkynningu félagsins til Kauphallar.

Samkvæmt bandarísku jarðfræðistofnuninni hafi Kína yfirráð yfir aðfangakeðjum þessara mikilvægu málma og framleiði um 98 prósent af gallium og 68 prósent af germanium á heimsvísu. 

Núverandi skortur á framboði þessara mikilvægu málma, sem séu lykilhráefni fyrir gervigreind, varnarmál, endurnýjanlega orku og hátækniiðnað, undirstriki mikilvægi stækkandi verkefnasafns Amaroq fyrir vestrænar aðfangakeðjur. Niðurstöðurnar styðji við trú stjórnenda félagsins miklum möguleikum sem felist í Black Angel verkefninu, sem næsta þróunarverkefnis félagsins á Grænlandi.

Þróun Black Angel muni byggja á sömu aðferðafræði og félagið beitti með góðum árangri í Nalunaq námunni, þar sem félagið hafi tekið við auðlind með hátt hlutfall af málmi, sem hafi haft innviði til staðar og félagið fært skipulega í átt að framleiðslu. Stjórnendur sjái svipað tækifæri í Black Angel, að byggja á núverandi innviðum og skapa aukið virði með markvissri vinnu og ábyrgri fjárfestingu.

„Með þessum viðskiptum verður West Greenland Hub annað námusvæði Amaroq á Grænlandi og lykilþáttur í metnaðarfullri vaxtarstefnu félagsins. Auk þess að hýsa Black Angel og Kangerluarsuk mun svæðið gegna hlutverki sem þjónustumiðstöð fyrir dótturfélag okkar Suliaq, sem mun styðja við vaxandi námu- og rannsóknariðnað á Vestur-Grænlandi. Við hlökkum til að þróa West Greenland Hub áfram sem nýja miðstöð námuvinnslu í Grænlandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×