Innlent

Vill hætta að kaupa aug­lýsingar á samfélagsmiðlum

Árni Sæberg skrifar
Logi Einarsson er menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.
Logi Einarsson er menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Vísir/Ívar Fannar

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið vinnur nú að stefnu fyrir ráðuneytið um kaup á auglýsingum og áskriftum hjá íslenskum fjölmiðlum. Meðal þess sem koma mun fram í stefnu ráðuneytisins er að ekki verði keyptar auglýsingar á samfélagsmiðlum eða í leitarvélum. Stefnan er liður í vinnu ráðuneytisins við fjölmiðlastefnu stjórnvalda, þar sem verður að finna sambærileg leiðbeinandi tilmæli um auglýsingakaup annarra opinberra stofnana.

Þetta kemur fram í minnisblaði, sem Logi Már Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, lagði fyrir ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur í morgun.

Þar segir að stefnan sé liður í vinnu við boðaða fjölmiðlastefnu stjórnvalda. Markmið hennar sé að styðja við íslenska fjölmiðlun og blaðamennsku, sem eigi í vök að verjast í alþjóðlegri samkeppni. Á síðustu árum hafi sífellt meiri fjármunum verið varið í auglýsingakaup hjá erlendum samfélagsmiðlum og leitarvélum og nú sé svo komið að um helmingur alls auglýsingafjár er fluttur úr landi. Þannig hafi liðlega 13 milljarðar króna runnið til erlendra miðla árið 2023. Einhvern hluta þeirrar upphæðar megi rekja til markaðssetningar ferðaþjónustunnar erlendis.

Mega birta færslur en ekki greiða fyrir dreifingu

„Fyrir vikið renna þessir fjármunir ekki til íslenskra fjölmiðla, sem gegna lykilhlutverki í íslensku samfélagi. Þeir miðla menningu og umræðu, stunda gagnrýna blaðamennsku og stuðla að notkun og sýnileika íslenskrar tungu í alþjóðavæddum heimi. Því er nauðsynlegt að búa fjölmiðlum gott rekstrar- og stuðningsumhverfi svo þeir séu betur í stakk búnir til að mæta þessari alþjóðlegu samkeppni og rækja lýðræðishlutverk sitt.“

Fyrrnefnd stefna menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins um kaup á auglýsingum og áskriftum taki mið af þessum veruleika íslenskra fjölmiðla. Meðal þess sem fram muni koma í stefnunni sé að ráðuneytið kaupi ekki auglýsingar á samfélagsmiðlum eða í leitarvélum og sporni þannig gegn því að auglýsingafé renni úr landi. Ráðuneytinu verði áfram heimilt að birta færslur á samfélagsmiðlum en ekki greiða fyrir aukna dreifingu þeirra eða kaupa sérstakar auglýsingar. Þess í stað skuli auglýsingum beint til innlendra fjölmiðla.

Þurfa skriflegan rökstuðning og samþykki

Sé talið nauðsynlegt að kaupa auglýsingar á samfélagsmiðlum, til að mynda til að ná til tiltekins markhóps sem ómögulegt er að nálgast með öðrum leiðum, skuli kaupunum fylgja skriflegur rökstuðningur og skriflegt samþykki forstöðumanns. Þetta sé gert til þess að tryggja rekjanleika og auka gagnsæi við auglýsingakaup ríkisins.

„Vonir standa til að stefna menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins um kaup á auglýsingum og áskriftum verði tilbúin fyrir árslok. Stefnan er liður í vinnu ráðuneytisins við fyrrnefnda fjölmiðlastefnu, þar sem verður að finna sambærileg leiðbeinandi tilmæli um auglýsingakaup annarra opinberra stofnana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×