Sport

Ísold verður bola­bítur og heldur til á upp­hafslóðum REM næstu árin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísold Sævarsdóttir hefur valið Georgíuháskóla og mun stunda þar nám og keppa með bolabítum skólans.
Ísold Sævarsdóttir hefur valið Georgíuháskóla og mun stunda þar nám og keppa með bolabítum skólans. @isoldsaevars

Íslenska sjöþrautarkonan Ísold Sævarsdóttir hefur valið sér bandarískan háskóla en þrír skólar voru á eftir þessari frábæru íþróttakonu.

Ísold hafði áður sagt frá því að hún hafi heimsótt þrjá háskóla í ferð sinni til Bandaríkjanna og valið stæði á milli þeirra.

Skólarnir voru University of Kentucky í borginni Lexington í Kentucky-fylki í suðaustur-Bandaríkjunum, University of Georgia í borginni Aþenu í Georgíufylki í Suður-Bandaríkjunum og University of Arizona í borginni Tucson í Arizona-fylki í suðavestur-Bandaríkjunum.

Ísold sagði frá vali sínum á sérstakan hátt á samfélagsmiðlum sínum. Þar má sjá hana ferðast um með bréf merkt háskóla í Bandaríkjunum. Bréfið fer með henni í skólatöskunni og myndbandið endar á því að hún opnar bréfið.

Þar kemur í ljós að Ísold hefur ákveðið að fara University of Georgia og verður liðsmaður Georgia Bulldogs-háskólaliðsins næstu fjögur árin.

Georgíu-háskóli hefur kannski verið þekktastur á Íslandi fyrir að þar varð til bandaríska hljómsveitin REM á níunda ártugnum en þeir Bill Berry, Peter Buck, Mike Mills og Michael Stipe voru allir nemar við skólann.

Ísold náði besta árangri íslenskra kvenna í sjöþraut á árinu þegar hún náði í 5490 stig á Norðurlandamótinu í fjölþrautum. Það skilaði henni silfri á Norðurlandamótinu.

Kvennalið Georgíu-háskóla varð NCAA-háskólameistari í fyrsta sinn í ár en þjálfari liðsins er Caryl Smith-Gilbert sem vann líka tvo háskólatitla sem þjálfari University of Southern California áður en hún kom til Aþenu.

Georgíuháskóli hefur átt gullverðlaunahafa á síðustu þremur Ólympíuleikum því Shaunae Miller-Uibo frá Bahamaeyjum (gull í 400 metra hlaupi 2016 og 2021) og Aaliyah Butler frá Bandaríkjunum (gull í boðhlaupi 2024) voru nemar við skólann.

Þær Gwen Torrence og Debbie Ferguson-McKenzie hafa einnig unnið gullverðlaun á Ólympíuleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×