Körfubolti

„Mér finnst við vera að taka skref í rétta átt fyrir fram­tíðina“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danielle Rodriguez er jákvæð eftir fyrstu kynni af nýjum þjálfara.
Danielle Rodriguez er jákvæð eftir fyrstu kynni af nýjum þjálfara. Sýn Sport

Danielle Rodriguez verður í stóru hlutverki í kvöld þegar íslenska kvennalandsliðið í körfubolta byrjar næstu undankeppni sína. Þetta er líka tímamótaleikur fyrir íslensku stelpurnar enda fyrsti leikurinn undir stjórn Pekka Salminen.

Valur Páll Eiríksson hitti Danielle á æfingu fyrir leikinn og spurði hana út í hvernig væri að hitta aftur landsliðsfélagana.

„Ég er mjög ánægð með það að Pekka kemur inn með nýtt kerfi sem við erum enn að læra. Mér finnst við vera að taka skref í rétta átt fyrir framtíðina,“ sagði Danielle sem talaði að sjálfsögðu íslensku í viðtalinu, vel gert hjá henni.

Nýi landsliðsþjálfarinn vill breyta hlutunum en það hefur verið erfitt að læra þetta nýja kerfi.

„Við spilum hraðari bolta og hreyfum okkur meira á vellinum. Við reynum líka að spila meira saman sem lið og ég held að þetta passi vel liðinu sem við erum með,“ sagði Danielle.

„Við viljum keyra upp tempóið en ekki bara í hraðaupphlaupum heldur einnig í uppsettum sóknum á hálfum velli,“ sagði Danielle og það má því búast við hröðum og skemmtilegum leik hjá íslensku stelpunum.

Hvernig leggjast þessir tveir leikir í Danielle en íslenska liðið er að fara mæta Serbíu og Portúgal á næstu dögum.

„Serbía og Portúgal eru bæði sterk lið. Þau voru líka bæði að spila í Eurobasket í Austurríki í sumar. Við þurfum fyrst og fremst að einbeita okkur að okkur sjálfum. Þetta snýst núna um að taka skref í rétta átt undir stjórn nýs þjálfara,“ sagði Danielle.

„Þetta byrjar allt mjög vel og æfingarnar hafa gengið vel,“ sagði Danielle eins og sjá má hér fyrir neðan.

Leikurinn á móti Serbíu hefst í kvöld klukkan 19:30 í Ólafssal að Ásvöllum í Hafnarfirði. Frítt er á leikinn í boði Bónus.

Klippa: Viðtal við Danielle fyrir Serbíuleikinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×