Viðskipti innlent

Markaðurinn telur taum­haldið of þétt en býst ekki við lækkun

Árni Sæberg skrifar
Seðlabankinn framkvæmdi könnunina dagana 3. til 5. nóvember.
Seðlabankinn framkvæmdi könnunina dagana 3. til 5. nóvember. Vísir/Vilhelm

Niðurstöður nýrrar könnunnar Seðlabanka Íslands um væntingar markaðsaðila um verðbólgu og vexti sýna fram á litlar breytingar. Hins vegar hækkaði hlutfall svarenda sem taldi taumhald peningastefnunnar vera of þétt og var 83 prósent samanborið við 43 prósent í síðustu könnun í ágúst. Markaðurinn býst þó ekki við því að peningastefnunefnd Seðlabankans lækki stýrivexti þegar hún tilkynnir næstu vaxtaákvörðun þann 19. nóvember.

Í tilkynningu á vef Seðlabankans segir að bankinn hafi kannað væntingar markaðsaðila um verðbólgu og vexti dagana 3. til 5. nóvember. Leitað hafi verið til 38 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, það er banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana, fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar og tryggingafélaga. Svör hafi fengist frá 30 aðilum og svarhlutfallið því 79 prósent.

Verðbólga verði yfir markmiði að meðaltali næstu tíu ár

Niðurstöður könnunarinnar gefi til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila hafi lítið breyst frá síðustu könnun í ágúst síðastliðnum. Þeir geri ráð fyrir að verðbólga hjaðni á næstunni og miðað við miðgildi svara vænti markaðsaðilar að verðbólga verði 3,4 prósent eftir eitt ár, 3 prósent eftir tvö ár og að meðaltali 3 prósent á næstu fimm og tíu árum. Þá bendi niðurstöðurnar til þess að markaðsaðilar búist við því að gengi krónunnar lækki á næstu misserum og gengi evru gagnvart krónu verði 149,5 krónur eftir eitt ár.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni geri markaðsaðilar ráð fyrir því að meginvextir Seðlabankans verði óbreyttir í 7,5 prósentum á núverandi fjórðungi en taki að lækka á ný í byrjun næsta árs. Markaðsaðilar geri ráð fyrir því að meginvextir lækki lítillega hraðar en talið var í ágúst og verði 7 prósent í lok fyrsta fjórðungs næsta árs og 6,25 prósent í lok ársins. Væntingar þeirra um meginvexti eftir tvö ár séu hins vegar óbreyttar milli kannana eða í 5,75 prósentum.

Hlutfall svarenda sem taldi taumhald peningastefnunnar vera of þétt hafi hækkað umtalsvert milli kannana og verið 83 prósent samanborið við 43 prósent í síðustu könnun. Um 17 prósent hafi talið taumhaldið vera hæfilegt samanborið við 43 prósent í ágúst. Enginn svarenda hafi talið taumhaldið of laust en í ágústkönnuninni hafi 14 prósent svarenda talið taumhaldið of laust.

Lítil eftirspurn lífeyrissjóða á gjaldeyrismarkaði hafi hækkað gengið

Heildardreifing svara um væntingar til verðbólgu á núverandi ársfjórðungi og að meðaltali næstu fimm ár hafi minnkað milli kannana en verið nánast óbreytt með tilliti til annarra tímalengda. Heildardreifing svara markaðsaðila um væntingar þeirra um þróun vaxta á núverandi ársfjórðungi hafi minnkað milli kannana en aukist hins vegar nokkuð þegar spurt var um væntingar til vaxta eftir eitt og tvö ár.

Markaðsaðilar hafi einnig verið spurðir út í það hver væri að þeirra mati megindrifkraftur hækkunar á gengi krónunnar á árinu. Tveir þriðju svarenda hafi nefnt að lítil eftirspurn lífeyrissjóðanna á gjaldeyrismarkaði hafi átt þátt í hækkuninni. Hluti svarenda hafi líka nefnt sterkan útflutning, einkum í ferðaþjónustu, og aukið innflæði fjármagns vegna fjárfestingar erlendra aðila í innlendum eignum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×