Íslenski boltinn

Arna Sif aftur heim

Aron Guðmundsson skrifar
Arna Sif mun aftur klæðast treyju Þór/KA
Arna Sif mun aftur klæðast treyju Þór/KA Vísir/Vilhelm

Arna Sif Ásgrímsdóttir er komin aftur heim til Akureyrar og hefur skrifað undir tveggja ára samning við Bestu deildar lið Þórs/KA.

Greint er frá þessu á vefsíðu liðsins núna í kvöld en Arna gengur endanlega í raðir Þór/KA þegar að samningur hennar við Val rennur út þann 16.nóvember næstkomandi.

Stutt er síðan að Arna Sif sneri aftur á knattspyrnuvöllinn bæði eftir krossbandaslit sem og barnsburðarleyfi. 

Hún sneri aftur á völlinn undir lok síðasta tímabils og kom við sögu í fjórum leikjum með Val í Bestu deildinni en hafði fyrir það ekki spilað leik síðan í febrúar 2024 eða þegar að hún sleit krossband í leik með Val gegn Fylki í Lengjubikarnum en árin áður hafði hún verið með bestu leikmönnum Bestu deildarinnar.

Arna Sif er fædd og uppalin á Akureyri og var ung að árum er hún skaust fram á sjónarsviðið með meistaraflokki Þór/KA. 

Nú telja leikirnir í meistaraflokki 425 leiki, 290 þeirra eru fyrir Þór/KA og þá hefur hún spilað nítján A-landsleiki fyrir Íslands hönd. 

Arna var fyrirliði í Íslandsmeistaraliði Þór/KA árið 2012 og hefur spilað sem atvinnumaður í Skotlandi, Svíþjóð og Ítalíu. 

„Stjórn Þórs/KA býður Örnu Sif velkomna aftur í okkar raðir. Það er mikið fagnaðarefni fyrir félagið og ekki síst yngri og reynsluminni leikmenn í okkar röðum að fá þessa öflugu og reynslumiklu knattspyrnukonu í okkar raðir. Hún á vafalaust eftir að reynast félaginu mikill styrkur, innan sem utan vallar, og væntum við mikils af henni,“ segir í yfirlýsingu Þór/KA sem má sjá í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×