Sport

Vetraríþróttirnar vilja alls ekki „sumaríþróttir“ inn á sína Ólympíu­leika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski hópurinn gengur inn á setningarhátíð Vetrarólympíuleikanna.
Íslenski hópurinn gengur inn á setningarhátíð Vetrarólympíuleikanna. Getty/Quinn Rooney

Sumarólympíuleikarnir eru troðfullir og fullt af íþróttum fá þar ekki inni. Eftirspurnin er gríðarleg. Nú vilja forráðamenn Ólympíuleikanna leysa það með því að færa einhverjar íþróttir yfir á Vetrarólympíuleikana. Yfirmenn stóru vetraríþróttanna vilja ekkert með það hafa.

Hugmyndir voru uppi um að víðavangshlaup og hjólakross yrðu hluti af Vetrarólympíuleikunum árið 2030 og það hefur jafnvel verið orðrómur í gangi að handboltinn sé ein af þessum íþróttum til að færa yfir á vetrarleikana.

Yfirmenn stóru vetraríþróttanna mótmæla þessu og hafa sent frá sér yfirlýsingu en í henni mótmæla þeir því sem þeir kalla „vangaveltur um að tilteknar sumaríþróttir verði teknar inn á Vetrarólympíuleikana“.

Engar sumaríþróttir takk

„Sambönd vetraríþrótta á Ólympíuleikum eru fullkomlega skuldbundin nýsköpun og að styrkja sérstöðu Vetrarólympíuleikanna“, segir

„Við teljum hins vegar að framtíð Vetrarólympíuleikanna sé ekki þjónað með því að taka inn sumaríþróttir“.

Forseti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, Sebastian Coe, er mikill stuðningsmaður þess að fleiri „sumaríþróttir“ verði teknar inn á Vetrarólympíuleikana. Samkvæmt The Guardian hefur Bretinn spáð því að víðavangshlaup og hjólakross verði hluti af Vetrarleikunum í Frakklandi árið 2030.

Jákvæðar fyrir nýhugsun

Stærstu vetraríþróttirnar eru jákvæðar fyrir nýhugsun en telja ekki að nýjar íþróttir séu rétta leiðin.

„Við fögnum viðleitni Alþjóðaólympíunefndarinnar til að halda áfram að nútímavæða leikana í von um að ná til nýrra áhorfenda og kanna kraftmiklar og viðeigandi leiðir til að gera Ólympíuhreyfinguna víðtækari og sjálfbærari“, skrifa þau.

Forseti sambands vetraríþrótta á Ólympíuleikum (WOF), Ivo Ferriani, er skýr í sinni skoðun.

„Nýsköpun ætti að beinast að því að þróa núverandi vetraríþróttir til að laða að breiðari þátttöku og áhorfendur, um leið og hlutverk Vetrarólympíuleikanna er styrkt,“ sagði Ferriani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×