Erlent

Sprengdu næst stærstu olíudælustöð Rúss­lands

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússar hafa stöðvað notkun dælustöðvarinnar í Novorossyisk en um tvö prósent af olíu sem seld erí heiminum á ári hverju er sögð fara þar í gegn.
Rússar hafa stöðvað notkun dælustöðvarinnar í Novorossyisk en um tvö prósent af olíu sem seld erí heiminum á ári hverju er sögð fara þar í gegn. Getty/Sasha Mordovets

Úkraínumenn gerðu í nótt árásir á þó nokkur skotmörk í Rússlandi, á sama tíma og Rússar létu sprengjum rigna yfir Kænugarð, höfuðborg Úkraínu. Meðal annars var notast við nýja gerð Neptune-stýriflauga sem sagðar eru drífa allt að þúsund kílómetra.

Í yfirlýsingu frá herforingjaráði Úkraínu segir að árásirnar hafi beinst að hernaðarlegum skotmörkum í Rússlandi og innviðum fyrir framleiðslu jarðeldsneytis.

Sjá einnig: Eldar í nær öllum hverfum eftir árásir Rússa á Kænugarð

Ein árásin beindist að flotastöðinni í Novorossiysk en þar segjast Úkraínumenn hafa ráðist á mikilvæga orkuinnviði og geymslustöð fyrir S-400 loftvarnarkerfi og flugskeyti.

Myndbönd frá Novorossiysk benda til þess að árásin hafi valdið einhverjum skaða á orkuinnviðum í höfninni. Þar reka Rússar mikilvæga dælustöð sem er sú næst mest notaða í Rússlandi.

Heimildarmenn Reuters segja að starfsemi dælustöðvarinnar hafi verið stöðvuð í kjölfar árásanna en um tvö prósent af seldri olíu í heiminum á ári hverju fara þar í gegn.


Önnur árás var gerð á olíuvinnslustöðina í Saratov. Þar kviknaði töluverður eldur en óljóst er hve miklar skemmdirnar eru. Þá var einnig gerð árás á olíugeymslustöð í Saratov og munu einnig hafa verið umtalsverðar sprengingar þar.

Notuðu eigin stýriflaugar

Vóldómír Selenskí, forseti Úkraínu, birti í dag myndband af stýriflaug skotið á loft. Þessi stýriflaug ku vera breytt Neptune-stýriflaug. Þessar stýriflaugar eru framleiddar í Úkraínu og voru upprunalega hannaðar til að granda skipum.

„Við erum að framleiða fleiri,“ sagði Selenskí.

Þessi nýja gerð er sögð geta drifið allt að þúsund kílómetra en óljóst er hvar þessar eldflaugar eiga að hafa verið notaðar í nótt.

Úkraínumenn notuðust einnig við eigin sjálfsprengidróna, eins og þeir hafa ítrekað gert áður.

Erfitt er fyrir Úkraínumenn að fá stýriflaugar frá bakhjörlum sínum í Evrópu, þar sem þær eru af tiltölulega skornum skammti. Því hafa þeir lagt mikið kapp á að auka framleiðslu á eigin stýriflaugum og sjálfsprengidrónum til árása í Rússlandi.

Sjá einnig: Stefna á fjölda­fram­leiðslu á eigin stýriflaugum

 Undanfarna mánuði hafa þeir gert ítrekaðar árásir á orkuinnviði í Rússlandi með því markmiði að grafa undan stríðsrekstri Rússa.

Sala á olíu og jarðgasi er langstærsta tekjulind rússneska ríkisins.


Tengdar fréttir

Óttast að Úkraínumenn verji Pokrovsk of lengi

Óttast er að Úkraínumenn séu að gera sömu mistök og þeir hafa gert áður, með því að reyna að halda ákveðnum bæ eða borg of lengi. Sérfræðingar og einhverjir yfirmenn í úkraínska hernum eru sagðir hafa áhyggjur af því að fall borgarinnar Pokrovsk sé orðið óhjákvæmilegt og að áframhaldandi vörn borgarinnar muni reynast dýrkeypt.

Leiðtogi AfD segir Rússa ekki ógna Þýskalandi en varar við Pólverjum

Tino Chrupalla, annar af æðstu leiðtogum flokksins Valkostur fyrir Þýskaland eða AfD, segir Þýskalandi ekki stafa nokkur ógn af Rússlandi Vladimírs Pútín. Það sama segir hann þó ekki um Pólland. Churpalla telur að Þýskalandi gæti stafað ógn af Póllandi.

Nýtt spillingarmál skekur Úkraínu

Forsvarsmenn sjálfstæðrar andspillingarrannsóknarstofnunar Úkraínu, sem kallast NABU, segjast rannsaka umfangsmikið spillingarmál í orkugeira ríkisins. Rannsóknin er meðal annars sögð snúa að meintum umfangsmiklum mútugreiðslum og fjársvikum sem tengjast ríkisfyrirtæki sem rekur þrjú kjarnorkuver.

Segja Rússa elta almenna borgara með drónum

Yfirvöld í Rússlandi hafa verið að nota dróna til að elta almenna borgara við framlínuna í Úkraínu, hrekja þá frá heimilum sínum og ráðast á þá þegar þeir freista þess að leita skjóls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×