Innlent

Þvoðu tugi milljóna og lög­reglan göbbuð í sumar­bú­stað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglan á Blönduósi fór fýluferð í september 2022 þegar yngri bróðirinn hringdi símtal í Neyðarlínuna á fölskum forsendum.
Lögreglan á Blönduósi fór fýluferð í september 2022 þegar yngri bróðirinn hringdi símtal í Neyðarlínuna á fölskum forsendum. Vísir/Vilhelm

Bræður á fimmtugsaldri hafa verið dæmdir í skilorðsbundið fangelsi og þá helst fyrir peningaþvætti. Öðrum var líka refsað fyrir að gabba lögregluna. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku.

Yngri bróðirinn var dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir peningaþvætti með því að hafa móttekið eða aflað sér ávinnings af auðgunarbrotum upp á rúmlega 35 milljónir króna. Hann notaði peningana meðal annars til úttektar á erlendum gjaldeyri og eigin framfærslu.

Þá var hann dæmdur fyrir að hafa mánudag í september 2022 hringt í Neyðarlínuna og tilkynnt ranglega að hann hefði orðið fyrir líkamsárás í sumarbústað nærri Blönduósi. Símtalið varð til þess að fjórir lögreglumenn frá Blönduósi og Sauðárkróki fóru á vettvang.

Þá var hann dæmdur fyrir að hafa brotist inn í verslun á Blönduósi nóttina eftir og stolið þaðan að lágmarki fjórum samlokum úr kæli búðarinnar.

Eldri bróðirinn var dæmdur fyrir peningaþvætti með því að hafa móttekið tæplega 26 milljónir króna frá bróður sínum. Nýtti hann peningana og umbreytti með gjaldeyrisviðskiptum með því að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir íslenskar krónur.

Yngri bróðirinn fékk tólf mánaða skilorðsbundinn dóm en sá eldri sex mánaða dóm. Horfði dómurinn til þess að peningaþvættisbrotin áttu sér stað á árunum 2016 til 2019, langt væri um liðið og tafir við rekstur málsins væru ekki bræðrunum að kenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×