Erlent

Hægri beygja Mette gæti kostað Jafnaðar­menn Kaup­manna­höfn

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Mette hengir upp kosningaplakat fyrir borgarstjórann í Herlev. Stefnubreyting hennar gæti kostað Jafnaðarmenn völdin í höfuðborginni.
Mette hengir upp kosningaplakat fyrir borgarstjórann í Herlev. Stefnubreyting hennar gæti kostað Jafnaðarmenn völdin í höfuðborginni. EPA/MADS CLAUS RASMUSSEN

Danir ganga að kjörborðinu í dag og velja í borgar- og sveitarstjórnir landsins. Skoðannakannanir benda til þess að svo gæti farið að Jafnaðarmannaflokkur Mette Frederiksen forsætisráðherra tapi meirihluta sínum í höfuðborginni Kaupmannahöfn.

Það yrði saga til næsta bæjar því Jafnaðarmenn hafa stjórnað borginni í meira en hundrað ár og allt frá árinu 1938, þegar yfirborgarstjóraembættinu í núverandi mynd var komið á, hefur sá ávallt komið úr röðum Jafnaðarmanna.

Í umfjöllun Guardian er hermt að nú gæti orðið breyting á og á meðal skýringa er óánægja borgarbúa með ákveðna hægri slgasíðu sem Mette Frederiksen er sögð hafa sett á flokkinn. Hún hefur tekið upp mun harðari stefnu í til að mynda innflytjendamálum en áður tíðkaðist hjá Jafnaðarmönnum og er það sagt hafa fallið í nokkuð grýttan jarðveg hjá höfuðborgarbúum.

Blaðið hefur eftir Bent Winter blaðamanni hjá Berlingske að kapphlaupið um Kaupmannahöfn hafi í það minnsta aldrei verið jafnara. Hann segir skoðanakannanir benda til þess að flokkarnir vinstra megin við Jafnaðarmannaflokkinn eygi nú raunverulegan möguleika á því að mynda meirihluta í Kaupmannahöfn án aðkomu Jafnaðarmanna.

Það hjálpar ekki til að frambjóðandi Jafnaðarmanna til borgarstjóraembættisins er Pernille Rosenkrantz-Theil, fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Mette Frederiksen og góð vinkona hennar. Svo góð raunar að þær eiga sumarhús saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×