Viðskipti innlent

Fullt til­efni enda hafi að­stæður gjör­breyst á skömmum tíma

Kolbeinn Tumi Daðason og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Sigurður Hannesson er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Sigurður Hannesson er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Vísir/Egill

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, fagnar mjög að peningastefnunefnd Seðlabankans hafi lækkað stýrivexti um 0,25 prósentustig í morgun. Þrálát verðbólga hafi komið í veg fyrir meiri lækkun.

Ákvörðunin var nokkuð óvænt og þvert á spár greiningardeilda bankanna sem reiknuðu með óbreyttum vöxtum.

„Við hjá Samtökum iðnaðarins fögnum mjög ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að lækka stýrivexti,“ segir Sigurður.

„Og við höfum raunar bent á það undanfarna daga og vikur að það sé fullt tilefni til lækkunar vaxta til þess að draga aðeins úr peningalegu aðhaldi vegna þess að hagkerfið er að kólna mjög hratt.“

Þar hafi orðið viðsnúningur síðan peningastefnunefnd kom síðast saman í byrjun október.

„Horfur eru verri. Það er röð áfalla í útflutningsgreinum til að mynda. Og allt þetta gerir það að verkum að verðbólga mun þá að öllum líkindum hjaðna eða lækka hraðar heldur en áður var spáð.“

Hann telur að Seðlabankinn hefði mátt ganga lengra miðað við aðstæður.

„En maður skilur vel að nefndin skuli vilja stíga varlega til jarðar. Verðbólgan er enn þá þrálát þannig að á þeim mælikvarða þarf aðhald, en hins vegar hafa horfurnar einfaldlega gjörbreyst frá síðustu ákvörðun.“

Nefndin tekur næstu ákvörðun um stýrivexti þann 4. febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×