Sport

Sterkasta kona heims svipt titlinum þegar í ljós kom að hún fæddist karl­kyns

Sindri Sverrisson skrifar
Jammie Booker tók við bikarnum efst á palli um helgina en Andrea Thompson var bersýnilega ósátt í 2. sæti. Thompson hefur nú verið krýnd Sterkasta kona heims.
Jammie Booker tók við bikarnum efst á palli um helgina en Andrea Thompson var bersýnilega ósátt í 2. sæti. Thompson hefur nú verið krýnd Sterkasta kona heims. Strongman

Hin breska Andrea Thompson hefur verið krýnd Sterkasta kona heims, í annað sinn á ferlinum, þrátt fyrir að hafa um helgina endað einu stigi á eftir hinni bandarísku Jammie Booker, eftir ábendingar um að Booker hefði fæðst karlmaður.

Booker fagnaði titlinum efst á verðlaunapalli um helgina og mátti sjá Thompson, sem vann keppnina árið 2018, ganga óánægða í burtu og segja: „Þetta er kjaftæði.“

Official Strongman samtökin hafa nú sent frá sér yfirlýsingu og tilkynnt að Booker hafi verið svipt titlinum. Þar segir að mótshaldarar hafi ekki vitað að líffræðilegt kyn Booker væri karlkyn en að reglurnar væru skýrar um að trans konum væri ekki heimilt að keppa í kvennaflokki.

Thompson hlaut því titilinn og aðrir keppendur voru einnig færðir upp um eitt sæti.

„Þessi sigur hefur ekki unnist án deilna en ég vil hafa það alveg á hreinu að á meðan ég styð og hvet fólk til þess að vera eins og það vill, þá eru íþróttir íþróttir og það er ástæða fyrir því að kvennaflokkar eru til,“ skrifaði Laurence Shahlaei, þjálfari Thompson, í færslu á Instagram.

Booker var ekki með nein skráð úrslit í gagnagrunni Strongman þar til í júní á þessu ári en óljóst er hvort að hún keppti áður í karlaflokki. Hún vann mót í júní og varð svo í 2. sæti í keppninni um sterkustu konu Norður-Ameríku.

Í tilkynningunni frá Strongman sagði að búið væri að reyna að hafa samband við Booker en án árangurs. Hún sendi frá sér myndband á Instagram á mánudaginn þar sem hún þakkaði ýmsu fólki fyrir að hafa stutt sig til sigursins sem hún hefur nú verið svipt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×