Skoðun

Börn og stuðningur við þau í í­þrótta- og tóm­stunda­starfi

Eygló Ósk Gústafsdóttir, Kristín Skjaldardóttir og Þóra Sigfríður Einarsdóttir skrifa

Þann 13.nóvember síðastliðinn, var rætt við þá Gunnar Birgison, íþróttafréttamann og þjálfara, og Magnús Þór Jónsson, formann Kennarasambands Íslands og dómara í morgunútvarpi Rásar 2, um mikilvægi þess að samskipti á milli skóla og íþróttafélaga yrðu bætt. Ástæða viðtalsins var hlaðvarpsþáttur sem Gunnar hafði farið í og kallað eftir meiri samvinnu á milli íþróttastarfs og skóla.

Lögðu þeir áherslu á að bætt samskipti væru lykilatriði til að tryggja velferð og sem mestan ávinning barna sem stunda íþróttir. Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs tekur undir þessa áherslu, þar sem ítrekað hefur komið í ljós í málum sem berast embættinu að skortur á reglulegu samtali um þarfir barnanna getur orðið til þess að þau njóti sín ekki sem skyldi í íþrótta- og tómstundastarfi. Börn sem rekast á í skólanum og þurfa stuðning og aukið utanumhald standa síðan oft ein í íþrótta- og tómstundastarfi, án þess að sá stuðningur fylgi með yfir í annað umhverfi. Einnig er staðan oft sú að þjálfarar og umsjónaraðilar slíks starfs hafa ekki verið upplýstir um greiningar eða sérstakar þarfir barnanna og því er ekki hægt að tillit til þess er barnið þarfnast. Þegar lög um farsæld barna voru sett árið 2021, stóðu vonir til að þessi samskipti myndu breytast og batna ásamt ýmsu öðru sem farsældarlögin hafa í raun og sann bætt í þágu barna. Því miður virðist vera að samskiptin nái ekki til íþrótta- og æskulýðsstarfs og því er það undir foreldrum komið að upplýsa um ef aðstoða þarf barn þeirra þegar kemur að íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Með farsældarlögunum var kveðið á um tengiliðir fyrir barnið og fjölskylduna tækju til starfa og myndu starfa í þágu barnsins og foreldra þess og í samstarfi við þau. Flestir leik- og grunnskólar hafa fengið fjármagn til að greiða fyrir að tengiliður sé til starfa innanhúss hjá þeim til að sinna móttöku á upplýsingum og vinna að samþættri þjónustu fyrir barnið innan skólanna. Svo virðist vera að ekki hafi verið hugsað út í það að sambærilegt fjármagn þyrfti að koma til fyrir íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í landinu til að börnum geti farnast sem best í sínu starfi þar. Úr þessu er mikilvægt að bæta börnum til heilla þannig að þau geti tekið þátt í sínu starfi á þeim vettvangi líkt og í skólanum.

Íþrótta- og tómstundastarf er ekki lögbundin skylda eins og skóli, en gegnir engu að síður mikilvægu hlutverki í lífi margra barna og fjölskyldna. Íþrótta- og tómstundastarf skiptir ekki aðeins máli fyrir hreyfingu og þann lærdóm sem börn tileinka sér í slíku starfi, heldur einnig vegna áframhaldandi þjálfunar í samskiptum við ólíka hópa og þess að fá að upplifa tilfinninguna að vera hluti af samfélagi þar sem allir deila sameiginlegum áhuga. Á Íslandi er jafnframt litið á íþrótta- og tómstundastarf sem mikilvæga forvörn fyrir börn. Þá eignast börn oft góðar fyrirmyndir í íþrótta- og æskulýðsstarfi sem verða þeim leiðarljós í framtíðinni.

Fyrir þau börn sem af ýmsum orsökum eiga í erfiðleikum og hafa verið metin þannig að þau þurfi stuðning í skóla og jafnvel á heimili sínu, er afar mikilvægt að stuðningur fylgi þeim líka í íþrótta- og tómstundastarf. Regluleg endurskoðun og endurmat eru óaðskiljanlegur hluti af verkefnum sem varða farsæld barna, og þar eigum við alltaf að spyrja: fylgir stuðningurinn barninu á alla þá vettvanga sem það sækir? Tökum íþrótta- og tómstundastarf inn í heildarmynd lífs barnsins, tryggjum því nauðsynlegan stuðning og ræktum betur samskiptin – fyrir börnin.

Höfundar eru samskiptaráðgjafar íþrótta- og æskulýðsstarfs.




Skoðun

Sjá meira


×