Skoðun

Sam­virkni ís­lenskrar ferða­þjónustu mun fyrst nást með skemmti­ferða­skipum

Unnur Elva Arnardóttir og Emma Kjartansdóttir skrifa

Ferðaþjónustan á Íslandi hefur verið fyrirferðamikil í íslensku efnahagslífi í meira en áratug og hefur vaxið úr 3,5% í landsframleiðslu árið 2010 þegar Inspired by Iceland herferðinni var hleypt af stokkunum hjá Íslandsstofu í 8,1% í fyrra. Í heimsfaraldrinum féll hluturinn niður í 3,1%. Við vitum því hvernig efnahagur okkar lítur út án ferðaþjónustu – velferð samfélagsins er undir, því hlutdeildar tölurnar í landsframleiðslu segja ekki alla söguna þar sem ferðaþjónustan stendur undir um það bil 32% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Þrjátíu þúsund manns starfa í íslenskri ferðaþjónustu og skatttekjurnar eingöngu standa undir meira en helming af dýrasta útgjaldalið þjóðarinnar, heilbrigðiskerfinu.

Ferðaþjónustan er sem betur fer kominn til að vera. En við þurfum að hlúa að henni og móta stefnu sem virkar fyrir okkur sem hér búa jafnt sem þá sem sækja okkur heim.

Samvirkni skemmtiferðaskipa og íslenskrar ímyndar mun vaxa

Skemmtiferðaskipageirinn þjónar þeim markmiðum íslenskra stjórnvalda og ferðaþjónustunnar mjög vel. Framtíðarsýn útgerða skemmtiferðaskipanna byggir á markmiðum um núllosun gróðurhúsalofttegunda eftir 25 ár. Cruise Lines International Association (CLIA) stefna að 40% samdrætti í losun árið 2030 miðað við árið 2008 og það er útlit fyrir að þessi markmið náist með aukinni notkun á grænni orkugjöfum, landtengingum og almennri tækniþróun sem dregur úr orkuneyslu skipanna. Skemmtiferðaskipin hafa undanfarin ár verið eini geirinn sem nær að draga úr losun á sama tíma og eftirspurn eftir siglingum eykst.

Þetta passar vel markmiðum sem stjórnvöld hafa skuldbundið Ísland til að ná; 50-55% samdrætti í nettólosun gróðurhúsalofttegunda árið 2035 miðað við árið 2005 í geirum sem eru skilgreindir í reglugerð um samfélagslosun.

Núllosun í landhelgi í fyrsta skiptið síðan á skútuöld?

Sá möguleiki er meira að segja fyrir hendi að Ísland verði fyrsta landið á heimsvísu þar sem skemmtiferðaskip kemur í heimsókn algjörlega án losunar gróðurhúsalofttegunda í íslenskri landhelgi. Það er nefnilega allt til staðar, skip sem getur siglt undir rafmagni að höfn, tengst landtengingu við rafmagn og jafnvel hitaveitu, og siglt aftur út úr landhelgi á rafmagni. Slík ferð ætti möguleika á að losa engar gróðurhúsalofttegundir í landhelginni og þyrfti að leita aftur til skútualdar eftir slíkum samanburði. Það er styttra í þetta en margan grunar og svona ferðaþjónusta passar vel hreinni ímynd og náttúru Íslands og yrði að auki leiðandi í íslenskri ferðaþjónustu í skipulagi sem þjónar álagsmarkmiðum sveitarfélaga á landsbyggðinni. Það er margt sem hægt er að læra af fyrirkomulagi ferðaþjónustu skemmtiferðaskipanna og við sjáum nú þegar ávinningin fyrir samfélagið af komu þeirra í því sem kallað hefur verið öflugasta byggðastefna landsins. Skipin heimsækja nefnilega sannanlega yfir þrjátíu áfangastaði á Íslandi öllu og rannsóknir hafa sýnt að neysla ferðamanna af skipunum getur verið mjög há.

Það er framtíðarsýn okkar hjá Cruise Iceland að Ísland verði leiðarljósið í ferðaþjónustu 21. aldarinnar, með sjálfbærni, álagsstýringu og samfélagssátt skemmtiferðaskipanna sem grunn undirstöður ferðaþjónustunnar. Við erum þegar vel á veg kominn – það eina sem vantar er að seglum sé hagað eftir vindi svo áfangastaðnum verði náð á réttum tíma. Við látum ekki okkar eftir liggja og munum byggja vinnu okkar á því góða samstarfi með hagaðilum á Íslandi sem við höfum byggt upp undanfarin ár.

Unnur Elva Arnardóttir, formaður stjórnar Cruise Iceland

Emma Kjartansdóttir, varaformaður stjórnar Cruise Iceland




Skoðun

Sjá meira


×