Skoðun

Eiga þakk­læti og pólitík sam­leið?

Berglind Guðmundsdóttir skrifar

Undanfarnar vikur hef ég lagt mig fram við að rækta þakklæti. Ekki þannig að ég krefji sjálfa mig um að finna eitthvað ákveðið á hverjum degi, heldur frekar að ég leyfi mér að staldra við þegar það kemur yfir mig. Það er góð tilfinning. Þakklæti minnir mig á að þrátt fyrir alls konar áskoranir sé lífið á svo margan hátt afskaplega gott.

Í kjölfarið hef ég meðal annars fundið fyrir miklu þakklæti gagnvart starfsfólki skólanna sem börnin mín hafa gengið í. Hversu vel skólakerfið hefur haldið utanum þau. Hversu mikinn metnað starfsfólkið hefur sýnt, hversu vel það hefur fylgst með líðan barnanna og hversu vel það hefur verið tekið í það þegar þau leita sér aðstoðar.

Þá rifjaðist upp fyrir mér mín eigin skólaganga, þar sem upplifun mín var hinsvegar sú að fáir virtust spá í líðan okkar og sumir jafnvel draga úr manni frekar en að hvetja og styrkja.

Ég var ein af þeim sem fékk setninguna „talar of mikið“ á einkunnaspjaldið, og ég gleymi því seint þegar einn kennari sagði við mig: „Já, Berglind,bylur hæst í tómri tunnu.“ Illkvittin setning sem vakti hjá mér skömm í langan tíma á eftir.

Eða þegar kennarinn minn skellihló yfir því að ég væri að gráta fyrir utan stofuna vegna þess að hamsturinn minn hafði dáið. „Ertu að gráta yfir dýri?“ spurði hann háðslega.

Í menntaskóla, þegar ég loks safnaði kjarki til að leita aðstoðar námsráðgjafa, fékk ég það ráð að hætta námi sem fyrst, því ég myndi hvort eð er aldrei útskrifast. Sem betur fer höfðu þessi orð þveröfug áhrif á mig og ég kláraði námið. En ég velti oft fyrir mér hversu margir hafa látið svona orð brjóta sig niður.

Auðvitað voru undantekningar. Englar sem birtust þegar allt var virtist ómögulegt. Eins og Sigrún stærðfræðikennari sem tók mig að sér og sýndi mér að ég gæti vel lært stærðfræði og jafnvel haft gaman af henni. Og Þórður íslenskukennari sem kveikti líf í Íslendingasögunum með ástríðu sinni. En mín upplifun var að þetta heyrði til undantekninga. Flestum virtist bara standa á sama.

Þegar ég horfi til baka sé ég hversu margt hefur breyst til hins betra. Hversu mikið hefur áunnist. Hversu mörg börn eiga í dag skóla þar sem líðan þeirra skiptir máli. Hversu margir kennarar vinna störf sín af hjartans alúð og vilja gera vel.

En þá vaknar spurning sem ég hef verið að velta fyrir mér:

Eiga þakklæti og pólitík samleið?

Ég hef nefnilega stundum fengið þá tilfinningu, sem ég vona að sé röng, að þessi tvö fyrirbæri séu andstæður. Að í pólitík sé meira rými fyrir að benda á það sem er ábótavant en það sem vel hefur tekist. Og stundum finnst mér samfélagsumræðan endurspegla það.

Auðvitað er margt sem þarf að bæta. Það er alltaf þannig í samfélagi sem vill vaxa og þroskast. En má ekki líka staldra við og þakka fyrir það sem vel er gert?

Höfundur er í stjórn Viðreisnar í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×