Innlent

Fjarðar­heiði lokuð vegna umferðarslyss

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Mynd úr safni frá snjómokstri á Fjarðarheiði.
Mynd úr safni frá snjómokstri á Fjarðarheiði. Skjáskot/Stöð 2

Vegurinn um Fjarðarheiði er lokaður sem stendur vegna umferðarslyss. Samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar verður vegurinn lokaður á meðan viðbragðsaðilar sinna störfum á vettvangi. Slysið varð við árekstur tveggja bifreiða, nokkrir farþegar auk ökumanna voru í bílunum en ekki liggur fyrir hve margir eru slasaðir né hvort um alvarleg slys sé að ræða. 

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, staðfestir í samtali við fréttastofu að slys hafi orðið við árekstur á heiðinni. Viðbragðsaðilar séu við störf á vettvangi og útlit fyrir að einhver slys hafi verið á fólki. „Það verður slys uppi á Fjarðarheiði þegar tveir bílar lenda saman og viðbragðsaðilar eru á vettvangi. Það er slys á fólki en ekki vitað hversu alvarlegt eða hversu margir,“ segir Kristján.

„Umferðarslys: Vegur er lokaður á meðan viðbragðsaðilar sinna aðgerðum á svæðinu,“ segir í uppfærslu Vegagerðarinnar sem birt var um klukkan 14:30 í dag. Ekki liggur heldur fyrir hvað orsakaði slysið en samkvæmt ferðaupplýsingum er hálka eða hálkublettir á allflestum leiðum á Austurlandi. 

Þess má geta að fyrr í dag var greint frá því við kynningu samgönguáætlunar að Fjarðarheiðargöng verði ekki lengur efst í forgangsröð stjórnvalda vegna jarðgangagerðar, sem sveitarstjóri Múlaþings segir mikil vonbrigði.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×