Innlent

Fjár­lög af­greidd fyrir hlæjandi þing­sal

Agnar Már Másson skrifar
Fjárlagafrumvarp Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra var afgreitt úr annari umræðu.
Fjárlagafrumvarp Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra var afgreitt úr annari umræðu. Vísir/Anton Brink

Annarri umræðu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar lauk á Alþingi í gær. Mikill galsi var í þingmönnum við afgreiðslu frumvarpsins.

Annarri umræðu um fjárlagafrumvarp fyrir 2026 lauk rétt fyrir klukkan 19 í gær og sluppu þingmenn við að halda þingfund í dag, laugardag. 

Fjárlagafrumvarp Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra var samþykkt með fimmtíu atkvæðum og því vísað til fjárlaganefndar og svo þriðju umræðu. Um fjörutíu breytingatillögur á frumvarpinu voru þá einnig samþykktar á þinginu í gær.

Morgunblaðið greinir enn frekar frá því að stjórnarliðar hafi frestað breytingum á mati á erfðafjárskatti sem voru fyrirhugaðar í bandorminum svokallaða, sem er frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld.  Breytingarnar höfðu mætt andspyrnu bænda þar sem þau eru sögð gera þeim erfiðara fyrir að arfleiða bú sín til ættingja. Framkvæmdastjóri Bændasamtakanna mótmælti breytingunum í viðtali í Reykjavík síðdegis í gær.

„Hér eru stóru verkin.“

Mikill galsi var í þingmönnum við afgreiðslu fjárlaganna í gærkvöldi, þá einkum þegar Guðlaugur Þór Þórðarson Sjálfstæðismaður gerði grein fyrir atkvæði sínu. 

Þar talaði hann háðslega um að „besta málið“ í fjárlagafrumvarpinu væri fólgið í breytingartillögu fjárlaganefndar sem lagði til sölu á ýmsum fasteignum sem væru í eigu ríkisins.

„Farið þið bara yfir listann. Við erum í alvöru að selja íbúðarhús á leigulóð að Kornbrekku í Rangárþingi ytra,“ sagði hann.

Þá heyrðist karlmannsrödd kalla úr þingsal: „Þið náðuð því ekki í síðustu stjórn.“

Og þingheimur hló. „Heimur batnandi fer,“ bætti Guðlaugur Þór við. „Hér eru stóru verkin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×