Skoðun

Það sem við skuldum hvort öðru

Jónas Már Torfason skrifar

Við göngum í gegnum einmanaleikakrísu. Við færumst áfram á sporum, drukknum í hversdagslífinu undir hraðari og flóknari tilveru, efnahagslegum þrengingum og óttablöndnu andrúmslofti. Þetta er allt svo erfitt og óskiljanlegt og við vitum ekki alveg af hverju innilokunarkenndin grípur um brjóst okkar. Glundroðinn fær okkur til að sækja inn á við, passa upp á sjálfa okkur — eitt skref í einu, ég þarf bara að komast í gegnum daginn. Ég skulda engum neitt, ég á nóg með mitt.

En það er erfitt hugsa sér kaldlyndari hugmynd en að við skuldum engum neitt. Það er grunnstef þróunar í átt að vaxandi einmanaleika og félagslegri einangrun. Fólk vill samt samfélag, kallar eftir því. En samfélag krefst fórna, það skapast ekki af sjálfu sér. Að hjálpa vini að flytja þótt maður nenni því ekki, að mæta í boðið sem er alls ekki á góðum tíma. Við manneskjurnar þurfum hvor aðrar og þurfum að finna að aðrir þurfi okkur.

Við pössum ekki upp á hvort annað því það hagnast okkur. Að gæta að öldruðum og fátækum þarf ekki að réttlæta með rökum um efnahagslegan ábáta. Okkar sameiginlegu gæði, almenningsgarðar, sundlaugar, fegurð í opinberum rýmum, þurfa ekki kostnaðar- og ábatagreiningu. Sumt gerum við af því það er rétt, ekki af því það skilar okkur arði, og sumt sem er rétt þurfum við að gera þrátt fyrir að það kosti okkur.

Þessar fórnir skapa samfélag — sameiginleg skuld okkar hvort við annað.

Höfundur er lögfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×