Erlent

Hótar að ganga úr Evrópu­samningi til að svipta út­lendinga ríkis­fangi

Agnar Már Másson skrifar
Formenn dönsku stjórnarflokkanna: Troels Lund Poulsen frá Venstre, Mette Frederiksen frá Sósíaldemókrötum og Lars Løkke Rasmussen frá Moderaterne.
Formenn dönsku stjórnarflokkanna: Troels Lund Poulsen frá Venstre, Mette Frederiksen frá Sósíaldemókrötum og Lars Løkke Rasmussen frá Moderaterne. EPA

Dönsku ríkisstjórnarflokkarnir eru klofnir yfir því hvort landið ætti að segja sig úr Evrópusamningi um ríkisfang svo stjórnvöld geti löglega svipt erlenda afbrotamenn dönsku ríkisfangi. Formaður eins ríkisstjórnarflokks viðraði þá hugmynd í gær að segja sig úr samningnum ef Danir koma ekki sínum breytingum í gegn.

Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra Danmerkur og formaður Venstre, sagði við dagblaðið Berlingske í gær að til greina kæmi að Danir segðu upp aðild sinni að Evrópusamningnum ef ríkisstjórnin næði ekki að gera áætlaðar breytingar á ríkisborgaralögum sambandsins fyrir næstu kosningar.

Ríkisstjórnin hefur leitað leiða við að breyta samningnum svo hægt sé að svipta þá sem hafa tvöfalt ríkisfang dönsku ríkisfangi ef þeir eru dæmdir fyrir afbrot. 

Samkvæmt samningnum, sem Ísland er aðili að, er aðeins heimilt að svipta menn ríkisborgararétti ef „hlutaðeigandi gerist sekur um háttsemi sem er mjög skaðleg hagsmunum samningsríkisins.“

Afstaða Poulsen kom samstarfsflokkum Venstre í opna skjöldu. Báðir flokkar vilja geta svipt útlendinga ríkisborgararétti sínum en eru ekki sammála þessari nálgun. 

Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra úr röðum Moderaterne, skrifar færslu á X þar sem hann kveðst hissa. Hann segir það ekki þjóna hagsmunum Danmerkur að Danir verði einförlir í þessum málum.

„Venstre vill draga Danmörku út úr ríkisborgararéttarsamningnum án undangenginnar umræðu í ríkisstjórninni. Eigum við að fara okkar eigin leið og segja Danmörku úr honum? Fordæmalaust. Á tímapunkti þar sem alþjóðlegum réttarreglum er ógnað og þar sem fjöldi ESB-ríkja sem styðja nálgun Danmerkur í útlendingamálum fer vaxandi: Þar sem við erum opin en höfum um leið þjóðlegt eftirlit. Einleikur Dana er að mínu mati engan veginn í þágu okkar eða málsins.“

Christian Rabjerg Madsen, fulltrúi sósíaldemókrata, segir við DR að flokkur sinn sé einnig mótfallinn þessum hugmyndum.

„Það má auðvitað alltaf deila um það. Í grundvallaratriðum held ég að það sé skynsamlegast að hóta því að vera um kyrrt en ekki að hóta því að fara, því við verðum að láta breyta þessum reglum svo við getum sent fleiri erlenda glæpamenn heim.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×