Innlent

Elsti Ís­lendingurinn er látinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórhildur var kát og hress á afmælisdaginn sinn í fyrra þann 22. desember.
Þórhildur var kát og hress á afmælisdaginn sinn í fyrra þann 22. desember. Vísir/MagnúsHlynur

Þórhildur Magnúsdóttir, sem bar titilinn elsti Íslendingurinn í þrjú ár, lést á laugardaginn 107 ára gömul. Hún hefði orðið árinu eldri þann 22. desember.

Jónas Ragnarsson greinir frá andláti Þórhildar á vefnum Langlífi. Þar kemur fram að aðeins átta Íslendingar hafi orðið eldri en Þórhildur. 

Þórhildur var fædd 22. desember 1917 í Miðhúsum í Árnessýslu, dóttir Magnúsar Gíslasonar bónda og Guðrúnar Ragnheiðar Brynjólfsdóttur húsfreyju. Systkinin voru átta. Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur 1923. Fimm af sex dætrum Þórhildar og Gústafs Adolfs Lárussonar eru á lífi á aldrinum frá 75 ára til 83 ára. Elsta barnabarnið er orðið 67 ára. Afkomendurnir eru um eitt hundrað. Þórhildur bjó í Blesugróf í Reykjavík í rúm sjötíu ár en fór á Hrafnistu á Sléttuvegi þegar hún var 102 ára.

Magnús Hlynur heimsótti Þórhildi á 107 ára afmælisdaginn hennar í fyrra.

Þórhildur og Hulda systir hennar, sem er 99 ára, slógu í sumar Íslandsmetið í samanlögðum aldri systkina. 

Þórhildur ásamt Huldu systur sinni.Vísir/MagnúsHlynur

Met þeirra er 207 ár og 108 dagar og má búast við að það standi í nokkur ár.

Langlífi tekur saman ýmsar áhugaverðar staðreyndir um ævi Þórhildar. Hún var á fyrsta ári þegar Íslands varð fullvalda árið 1918, tólf ára þegar Alþingishátíðin var haldin á Þingvöllum 1930, 26 ára þegar Lýðveldishátíðin var haldin á Þingvöllum 1944, 37 ára þegar Halldór Laxness fékk bókmenntaverðlaun Nóbels 1955, 55 ára þegar eldgosið varð í Heimaey 1973, 62 ára þegar Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti Íslands 1980 og 90 ára þegar bankahrunið varð 2008.

Á ævi Þórhildar hafa tuttugu og níu forsætisráðherrar verið starfandi, níu biskupar og sjö forsetar.

Jóninna Margrét Pálsdóttir er elsti núlifandi Íslendingurinn, 105 ára, fædd í Stykkishólmi í mars 1920. Hildur Sólveig systir hennar varð 103 ára og móðir þeirra 101 árs.

Fjöru­tíu og fjórir ein­staklingar hér á landi voru 100 ára eða eldri um síðustu áramót.

Fyrr á árinu lést Tomioko Itooka, elsta kona í heimi en hún var 116 ára gömul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×