Lífið

Frægir fundu ástina 2025

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ástin var í loftinu árið 2025.
Ástin var í loftinu árið 2025.

Ástin spyr ekki um aldur, ástin spyr ekki um störf og hún skýtur stundum upp kollinum þegar maður á síst von á því. Fjöldi fólks fann ástina á árinu sem er að líða og rötuðu samböndin nýju stundum í fréttirnar.

Vísir flutti fjöldann allan af fréttum af nýjum samböndum ástfangins fólks á árinu sem er að líða. Hér að neðan má sjá það helsta í tímaröð.


Ræstu árið ástfangin

Söngleikjadrottningin Valgerður Guðnadóttir, betur þekkt sem Vala Guðna, og Jóhann Gunnar Baldvinsson fögnuðu síðustu áramótum saman og byrjuðu nýja árið á að tilkynna samband sitt. Smá svindl því þau hafa væntanlega byrjað saman í fyrra en við leyfum því að slæda.

Svipað var uppi á teningunum hjá Annýju Rós Guðmundsdóttur öldrunarlækni og Guðlaugi Inga Guðlaugssyni fasteignasala sem tóku fagnandi á móti 2025 saman.


Húbbabúbba Haba Haba 

Eyþór Aron Wöhler, tónlistarmaður og knattspyrnukappi, og Hrefna Steinunn Aradóttir, viðskiptafræðinemi við Háskólann í Reykjavík, kynntust í gegnum Instagram snemma á árinu og ástin blómstrar enn.

Áhugi á knattspyrnu hefur kannski leitt þau saman en Hrefna, sem er úr Garðabænum, var efnileg í knattspyrnu og lék með hinum ýmsu yngri landsliðum.


Sviss, Brautarholt og mynd með Erpi

Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari og fótboltagoðsögn, sást á skíðum með Höllu Vilhjálmsdóttur Koppel, leikkonu og verðbréfamiðlara, í Sviss í mars ásamt góðum vinum. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu höfðu þau verið að hittast í undanfara skíðaferðarinnar. Í júlí sást síðan aftur til parsins njóta veðurblíðunnar í Brautarholti á Kjalarnesi þar sem þau fóru saman golfhring.

Sjá einnig: Fyrst skíði og nú golf

Nokkrum dögum síðar birtist fyrsta myndin af þeim saman á samfélagsmiðlum þegar rapparinn Erpur Eyvindarson deildi mynd af sér með parinu og skrifaði við hana: „Þvílíkur fílingur bara.“ Þau fundu greinilega ástina og hafa vonandi ekki týnt henni síðan.


Grand ást á Smitten

Vala Grand Einarsdóttir og Brynjólfur Gunnars­son, sem vinir og fjölskylda kalla Bryn, byrjuðu saman í vor eftir að hafa kynnst á stefnumótaforritinu Smitten. Þau deila ástríðu fyrir tölvuleikjum og vinna bæði í tæknigeiranum, Vala hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Icelandia við upplýsingatækni, en Brynjólfur sem forritari hjá vefstofunni Vettvangi.


Aktívistaást án landamæra

Aðgerðarsinnarnri Rósa Líf Darradóttir og Anahita Sahar Babaei fundu ástina snemma á árinu og birtu fallegar myndir af sér á ferðalagi um Ísland í maímánuði. Þær kynntust fyrst á málþinginu To Whale or Not to Whale í Norræna húsinu árið 2023 og heilluðust greinilega hvor af annarri. 

Rósar er læknir og formaður Samtaka um dýravelferð á Íslandi en Anahita er listakona og kvikmyndagerðarkona. Hún varð Íslendingum fyrst kunn í september 2023 þegar hún, ásamt Elissu Bijou, mótmæltu hvalveiðum Íslendinga með því að dvelja í tunnum á hvalveiðibátum við Reykjavíkurhöfn í 33 klukkustundir.


Sumar ástir eru sumarástir

Anna Guðný Ingvars­dótt­ir, flugfreyja hjá Icelandair, fann ástina í örmum Guðmundar Smára Þorvaldssonar, vörustjóra hjá Adsum og kraftlyftingamanni, í sumar og birti fallegar myndir af parinu á miðlunum. 

Rithöfundurinn og baráttukonan Þórdís Elva Þorvaldsdóttir fann ástina í sumar í örmum hinnar kanadísku Jann Arden, sem er tónlistarkona, rithöfundar, hlaðvarpsstjórnandi og leikkona.

Talsverður aldursmunur er á parinu, eða átján ár, en Þórdís Elva er 45 ára en Arden 63 ára. Arden er ein þekktasta söngkona Kanada, meðal annars fyrir lögin „Insensitive“, sem varð hennar stærsti smellur, „Could I Be Your Girl“, „Cherry Popsicle“ og „I Would Die for You“.

Leikarinn Aron Már Ólafsson, betur þekktur sem Aron Mola, og Erla Lind Guðmunds­dótt­ir, nemi í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands, kynntust á Kaffibarnum snemmsumars og hefur ástin blómstrað síðan. 


Leikkona og plötusnúður þeyttu skífum ástarinnar

Leikkonan Unnur Birna Backman og plötusnúðurinn Daði Ómarsson byrjuðu að slá sér upp í sumar. Unnur opinberaði svo sambandið þegar hún birti mynd af Daða í ágústlok þar sem þau voru saman úti að borða í tilefni af afmæli hans.

Unnur Birna er einn mest spennandi sjónvarpsleikkona landsins, hefur á síðustu árum leikið í þáttunum Aftureldingu, Skvíz og Svörtu Söndum II og lauk nýverið tökum á glæpasagnaþáttunum Elmu þar sem hún er í aðalhlutverki. Daði hefur verið einn öflugasti plötusnúður landsins síðustu ár.


Óbein frumsýning á frumsýningu

Glæpasagnahöfundurinn Ragnar Jónasson og Tatiana Ósk Hallgrímsdóttir, fyrirsæta og fyrrverandi forstöðumaður menningarmála hjá Edition, höfðu verið að slá sér upp í þónokkurn tíma þegar Vísir greindi frá sambandi þeirra í september. 

Þau höfðu þá mætt saman á fjölmenna frumsýningu glæpaþáttaraðarinnar Reykjavík Fusion í Haskólabíói og þannig óbeint frumsýnt sambandið þar. Sautján ára munur er á parinu, Tatiana er 32 ára en Ragnar 49 ára.


Fegurðardrottning og silfurrefur

Kolbrún Pálína Helgadóttir, markaðssérfræðingur hjá Ósum, jógakennari og Ungfrú Ísland árið 2001, fann ástina í örmum silfurrefsins Helga Guðmundssonar og frumsýndi nýja kærastann með fallegri myndafærslu á Instagram. Þar mátti sjá þau saman á ferðalagi hérlendis í sumar og í fríi erlendis á suðrænum og heitari slóðum. 


Torrini og Schram

Söngkonan Emilíana Torrini og Ellert Kristófer Schram, eigandi og framkvæmdastjóri EKS Verk ehf., byrjuðu að slá sér upp í sumar og ferðuðust þá um landið í góðra vina hópi. Fréttir af sambandinu komu þó ekki fyrir í fjölmiðlum fyrr en í september.


Ástfangin í Hljómskálagarðinum

Ágústa Eva Erlendsdóttir, söngvari og leikkona, fann ástina í örmum grafíska hönnuðarins Antonio Otto Rabasca fyrr á árinu og í haust sást til þeirra leiðast í Hljómskálagarðinum ástfangin upp fyrir haus.

Hvergerðingurinn Ágústa Eva er landsþekkt en hún spratt fram á sjónarsviðið sem karakterinn Silvía Nótt í sjónvarpsþáttunum Sjáumst með Silvíu Nótt á Skjá einum og varð síðan landsfræg þegar hún fór sem Silvía með lagið „Til hamingju Ísland!“ í Eurovision. Antonio Otto Rabasca er ekki eins þekktur en hann starfar sem grafískur hönnuður hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Gray Line. 


Samruni dansgólfsins og eldhússins

Listræni stjórnandinn, framleiðandinn og danshöfundurinn Stella Rósenkranz og Davíð Örn Hákonarson, stjörnukokkur og meðeigandi veitingastaðarins Skreið, byrjuð að slá sér upp fyrr á árinu og tilkynntu sambandið  opinberlega þegar þau birtu myndir úr rómantískri ferð á Kerlingafjöll yfir afmæli Stellu.


Ein fallegasta ástarsaga ársins

Þorsteinn Einarsson, söngvari og gítarleikari í Hjálmum, og tónlistarkonan Sigríður Eyþórsdóttir byrjuðu aftur saman eftir að hafa verið í sundur í mörg ár. Þau kynntust fyrst árið 2004, eignuðust tvö börn saman og giftu sig en leiðir skildu fyrir mörgum árum síðan.

Sigríður Eyþórsdóttir, betur þekkt sem Sigga Ey, er úr mikilli tónlistarfjölskyldu, dóttir Ellenar Kristjánsdóttur og Eyþórs Gunnarsssonar. Hún stofnaði hljómsveitina Sísí Ey með systrum sínum og kepptur þær saman í Eurovision 2022. Þorsteinn Einarsson, betur þekktur sem Steini í Hjálmum, er alinn upp á Hallormsstað en stofnaði reggísveitina Hjálma með nokkrum félögum í Keflavík árið 2004. Þeir hættu tímabundið árið 2006 en hafa spilað á fullu síðan.

Sigríður og Þorsteinn byrjuðu fyrst saman fyrir rúmum tuttugu árum, hann 27 ára og hún 24 ára, en Sigríður átti fyrir eitt barn úr fyrra sambandi. Þau eignuðust tvö börn saman en svo skildu leiðir. En nú er ástin farin að blómstra á ný.


Lukkulegir lögfræðingar fluttu inn saman

Lögfræðingarnir Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir og Sveinn Andri Sveinsson byrjuðu að rugla saman reytum fyrr á árinu og í október greindi Vísir frá því að Vigdís hefði flutt lögheimili sitt til Svein. Vigdís og Sveinn starfa saman hjá lögmannsstofunni Reykvískir lögmenn slf. og hafði sást reglulega til þeirra saman í höfuðborginni mánuðina á undan. 


Rómó hjá rokkara og fyrirsætu

Fyrirsætan Helen Málfríður Óttarsdóttir og gítarleikarinn Rubin Pollock byrjuðu að stinga saman nefjum í ár og tilkynntu þau sambandið opinberlega þegar Helen deildi mynd af þeim saman í rómantískri göngu um götur London.


Ást að norðan

Rapparinn Pétur Már Guðmundsson, betur þekktur sem Saint Pete, og Hrafnkatla Unnarsdóttir, verslunarkona og eigandi Pons Vintage, fundu ástina fyrr í ár. Pétur birti síðan í upphafi októbermánaðar mynd af Hrafnkötlu í Tennishöll Kópavogs eftir tennisspil. Þau eru bæði að norðan og höfðu þekkst lengi áður en þau tóku að slá sér upp.


Lukkulegir í Manchester

Sundkappinn og söngvarinn Már Gunnarsson kynnti nýja kærastann sinn, hinn breska Harrison Humby, með því að deila mynd af þeim saman á Instagram í októberlok. Már er í tónlistarnámi á háskólastigi í The Royal Northern College of Music í Manchester, og Humby er stjórnmálafræðingur.


Fundu ástina og fluttu suður á bóginn

Blaðamaðurinn Atli Steinn Guðmundsson fann ástina í örmum Unnar Jóhannsdóttir í Noregi og fluttu síðan saman suður á bóginn. Atli rakti alla ástarsöguna í löngu máli á Fésbókarsíðu sinni. Ástarfréttirnar vöktu ekki síst athygli því tíu mánuðum fyrr hafði Atli gifst hinni norsku Anítu Sjøstrøm við Miklagljúfur og kærasta þeirra hjóna gefið þau saman.


Athafnamaður og þingkona ástfangin

Ari Edwald, lögfræðingur og athafnamaður, og Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins, féllu hugi saman á árinu. 

Ari hefur gegnt forstjórastöðu hjá bæði Mjólkursamsölunni og 365 miðlum en einnig verið framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og aðstoðarmaður bæði dóms- og kirkjumálaráðherra og sjávarútvegsráðherra. Ingibjörg starfaði í utanríkisþjónustunni í tvo áratugi en var kjörin á Alþingi á síðasta ári.


Landsliðskona fór á fast

Íslenska landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Ísak Örn Valdimarsson byrjuðu að hittast í sumar og láku fréttir af sambandi þeirra í fjölmiðla í nóvember. Karólína birti síðan fallega myndaseríu af parinu á Instagram í byrjun desember og skrifaði við hana: „Ég er ein heppin dama“.


Fegurðardrottning og hestamaður

Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir, ráðgjafi í vinnusálfræði og ungfrú Ísland árið 2001, og Hjörtur Bergstað, formaður hestamannafélagsins Fáks og stjórnarformaður Málningar, byrjuðu að hittast í ár og sást til þeirra saman í Tungnaréttum í lok septembermánaðar.

Ragnheiður Guðfinna var kjörin Ungfrú Ísland árið 2001 og hefur síðan þá verið áberandi í fjölmiðlum. Hjörtur er stór í hestasamfélaginu og var formaður síðasta Landsmóts árið 2024. Sextán ára aldursmunur er á parinu, Hjörtur er fæddur árið 1964 og Ragnheiður 1980.


Ævintýraleg ást útvarpskonu og vöruhússtjóra

Útvarpskonan Kristín Ruth Jónsdóttir og Arnar Snær Pétursson, vöruhússtjóri flugfrakta hjá Icelandair, fundu ástina á árinu og fóru víða saman, gengu á Kerlingafjöll í spetember og í skíðaferð til Austurríkis í október.


Húðdrottning og Húrrakóngur

Jón Davíð Davíðsson, einn eigenda Húrra Reykjavíkur, Flateyjar pizzu og Yuzu, og Helga Sigrún Hermannsdóttir, stofnandi og eigandi Dóttur Skin, byrjuðu að slá sér upp fyrr á árinu. Þau tilkynntu sambandið ekki formlega en ýmsar vísbendingar þess mátti sjá á samfélagsmiðlum upp úr sumri og í nóvember greindi Vísir frá sambandinu.


Anderson og Arndís

Desember hefur farið rólega af stað í ástarfréttum. Enn sem komið er hefur Vísi einungis greint frá nýju sambandi lögfræðingsins Arndísar Önnur Kristínardóttur Gunnarsdóttur og plötusnúðsins Lindu Þóreyjar Anderson. Arndís mætti með Lindu upp á arminn í boð fyrrverandi þingmanna á dögunum og virðist ástin blómstra hjá þessu glæsipari.

Nú er bara að vona að fleiri finni ástina á næstunni, jólakærustur og kærastar taki að skjóta upp kollinum  fram að áramótum.


Tengdar fréttir

Frægir fundu ástina 2024

Ástarguðinn Amor skaut örvum sínum víða á árinu sem er að líða. Í hverjum einasta mánuði bárust fréttir af nýjum samböndum á Vísi.

Frægir fundu ástina 2023

Það er ekkert betra en að finna ástina. Út á það gengur lífsins hamingja hjá ansi mörgum þó sumum finnist fínt að vera einir.

Frægir fundu ástina árið 2022

Á hverju ári greinir Vísir reglulega frá nýjum pörum og þá sérstaklega kemur að þekktum Íslendingum.

Frægir fundu ástina árið 2021

Á hverju ári greinir Vísir ávallt frá nýjum pörum og þá sérstaklega kemur að þekktum Íslendingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.