Fótbolti

Lög­regla með rassíu hjá argentínska sam­bandinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Ángel Di María með heimsbikarinn sem Argentínumenn unnu fyrir þremur árum síðan.
Lionel Messi og Ángel Di María með heimsbikarinn sem Argentínumenn unnu fyrir þremur árum síðan. Getty/Gustavo Pagano

Argentínska lögreglan gerði áhlaup á skrifstofur knattspyrnusambandsins og nokkurra argentínskra fótboltafélaga í gær. Aðgerðin var liður í yfirstandandi spillingarrannsókn.

Fréttastofan AFP greinir frá lögregluáhlaupinu á þriðjudag. Argentínskir fjölmiðlar fjalla einnig um aðgerðina sem sögð er tengjast peningaþvættismáli.

Að sögn argentínska dagblaðsins Olé mun alríkisdómarinn sem stýrir rannsókn málsins hafa fyrirskipað fjölda áhlaupa á ýmis knattspyrnufélög og sjálft knattspyrnusambandið.

Banfield, San Lorenzo, Racing og Independiente eru sögð vera meðal þeirra félaga sem fengu rannsóknarlögreglumenn í heimsókn.

„Hingað til hafa 25 til 30 áhlaup verið gerð hjá félögum og á einkaheimilum,“ segir heimildarmaður AFP.

Viðkomandi staðfestir einnig aðgerðina gegn höfuðstöðvum sambandsins.

Rannsakendur eru sagðir leita að bókhaldsupplýsingum sem tengjast fjármálafyrirtækinu Sur Finanzas, sem styrkir nokkur félög. Fyrirtækið er grunað um lögbrot.

Í síðasta mánuði lögðu skattyfirvöld fram kvörtun á hendur fyrirtækinu og sökuðu það um að koma sér undan skatti af 550 milljónum dollara í argentínskum pesóum. Það jafngildir rúmlega sjötíu milljörðum íslenskra króna.

Fyrirtækið hefur gert fjölda viðskiptasamninga innan argentínska knattspyrnuheimsins og framkvæmdastjórinn Ariel Vallejo er sagður í nánum tengslum við Claudio Tapia, forseta knattspyrnusambandsins.

Á síðasta ári var Sur Finanzas opinber styrktaraðili argentínsku knattspyrnudeildarinnar og landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×