Fótbolti

Slógu tvær flugur í einu höggi og vöktu gríðar­lega at­hygli

Aron Guðmundsson skrifar
Stuðningsmenn Bodö/Glimt og norska landsliðsins á leik á HM kvenna í handbolta í Dortmund í gær
Stuðningsmenn Bodö/Glimt og norska landsliðsins á leik á HM kvenna í handbolta í Dortmund í gær Vísir/Getty

Stuðnings­menn norska úr­vals­deildar­félagsins Bodö/Glimt hafa heldur betur nýtt ferð sína á úti­leik liðsins gegn Dort­mund, í Meistara­deildinni í kvöld, vel. Þeir voru að sjálfsögðu mættir til að styðja við bakið á norska kvenna­lands­liðinu í hand­bolta í gær sem spilar í sömu borg á HM.

Norð­mennirnir kunna heldur betur að styðja við sín lið og stuðnings­menn Bodö/Glimt eru þar engin undan­tekning. Sama hvar liðið spilar getur maður verið viss um að stór hópur stuðnings­manna fylgi því um gjör­valla Evrópu.

Norska kvenna­lands­liðið hefur valtað yfir hvern and­stæðinginn á fætur öðrum á heims­meistaramótinu í hand­bolta sem stendur yfir í Þýska­landi og Hollandi og í gær tryggði liðið sér sæti í undanúr­slitum mótsins með stór­sigri á Svart­fjalla­landi.

Gult haf stuðnings­manna Bodö/Glimt, sem eru komnir saman í Dort­mund til að styðja við bakið á sínum mönnum í Meistara­deild Evrópu í fót­bolta í kvöld, tóku yfir West­fal­len höllina í Dort­mund í gær á meðan á lands­leik Noregs og Svart­fjalla­lands stóð yfir.

Bodö/Glimt hefur gengið illa að safna stigum í Meistara­deildinni á yfir­standandi tíma­bili, liðið situr í 33.sæti í þrjátíu og sex liða deildar­keppni, er þar með tvö stig en getur með góðum úr­slitum í næstu þremur leikjum sínum vippað sér upp í eitt af sætum níu til tuttugu og fjögur og tryggt sér sæti í næsta hluta keppninnar.

Þetta eru þó þrír erfiðir leikir. Gegn Dort­mund í kvöld, svo heima gegn Manchester City áður en loka­leikur liðsins í deildar­keppninni fer fram í Madríd gegn At­letico Madrid.

En í svona stöðu er gott að hafa góða stuðnings­menn á bak við sig. Bodö/Glimt getur svo sannar­lega treyst á þá.

Leikur Dort­mund og Bodö/Glimt í Meistara­deild Evrópu verður sýndur í beinni út­sendingu á Sýn Sport 4 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×