Íslenski boltinn

Fann­dís kveður sviðið: „Ég er búin að fella nokkur tár“

Aron Guðmundsson skrifar
Nýr kafli tekur nú við hjá Fanndísi Friðriksdóttur nú þegar hún hefur lagt fótboltaskóna á hilluna eftir farsælan feril
Nýr kafli tekur nú við hjá Fanndísi Friðriksdóttur nú þegar hún hefur lagt fótboltaskóna á hilluna eftir farsælan feril Vísir/Sigurjón

Fann­dís Friðriks­dóttir hefur ákveðið að leggja fót­bolta­skóna á hilluna. Eftir sigursæla tíma eru það ekki titlarnir sem standa upp úr hjá henni, heldur fólkið sem hún deildi veg­ferðinni með.

Farsæll fót­bolta­ferill Fann­dísar líður nú undir lok og kveður hún sviðið sem þriðji leikja­hæsti leik­maður efstu deildar með 278 leiki, 129 mörk og fjölmarga Ís­lands- og bikar­meistara­titla með liðum Breiða­bliks og Vals. Eitt hundrað og tíu sinnum var hún full­trúi Ís­lands í lands­leikjum og fór nokkrum sinnum á stór­mót.

„Ég hef fengið gríðar­lega mikil viðbrögð og er klökk því ég hef fengið svo mikið af fal­legum skila­boðum. Bara eins og ég segi í færslunni minni, það eru ekki titlarnir sem sitja eftir heldur fólkið. Það lætur í sér heyra á svona stundu, þakkar manni fyrir og hrósar, það er gaman og ég er búin að fella nokkur tár yfir mörgum skila­boðum.“

Gerði greinilega eitthvað rétt 

Ákvörðunin um að leggja skóna á hilluna hafði blundað í henni.

„Hvenær er rétti tíma­punkturinn að hætta? Manni langar eigin­lega aldrei að hætta þessu. En svo var það búið að læðast að mér að þetta gæti verið ágætis tíma­punktur. Ég fór í gott frí eftir tíma­bilið, hugsaði þetta fram og til baka, ræddi við mitt fólk og komst alltaf að þessari niður­stöðu. Núna finnst mér ég til­búin í að til­kynna þetta og er bara gríðar­lega sátt með að vera búin að segja frá þessu loksins.“

Frá leik Breiðabliks og Vals. Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður Vals hér umkringd leikmönnum BreiðabliksVísir/HAG

Hvaða þætti ertu að vega og meta þegar að þú ert að hugsa um að leggja skóna á hilluna?

„Það er alls konar. Maður pælir í líkam­lega þættinum sem og tímanum sem maður er að eyða í þetta, er hann þess virði? Núna er maður komin með börn og þá skiptir máli hvaða lið maður er með í höndunum. Ég náttúru­lega fæ þá til­kynningu frá Val að ég fengi ekki áfram­haldandi samning þar. Þá skoðaði ég hvað kom upp, það voru alls konar skemmti­legir mögu­leikar á borðinu. Ég er alla­vegana enda­laust þakk­lát fyrir að það var enn þá heyrt í manni. Ég gerði greini­lega eitt­hvað rétt í sumar og mér líður þannig.“

„Ég hef lagt allt í þetta“

Nú hefur hún tekið ákvörðunina, stendur við hana og er sátt.

„Ég gerði allt sem að mig langaði að gera. Ég stóð alltaf föst á mínu, var alltaf ég sjálf og mikið í núinu, þannig er ég bara sem manneskja. Ég gerði þetta ekki nema af því að það var gaman. Þetta var alltaf skemmti­legt. Auðvitað var þetta erfitt og alls konar en þetta var bara um­fram allt skemmti­legt, ógeðs­lega skemmti­legt.“

Fanndís Friðriksdóttir fagnar marki sínu á EM 2017 gegn SvissVísir/Getty

Í færslu sem hún birti á sam­félags­miðlum þar sem að Fann­dís greindi frá ákvörðun sinni skrifaði hún að hún tæki frelsinu fagnandi. Hvað átti hún við með því?

„Þetta er skuld­binding. Ég hef lagt allt í þetta, í hvaða liði sem ég hef verið í, sleppt öllu og sé ekki eftir neinu. Ég meina það bara þannig að það verður skrýtið að hafa ekki skuld­bindinguna. Ég á eftir að sakna þess að vera ekki að fara á fót­boltaæfingu en það er líka ákveðið frelsi í því að þurfa ekki að vera ein­hvers staðar seinni partinn. Frelsið að geta farið í sumar­frí, allt sem því fylgir að hafa ekki þessa skuld­bindingu. Ég á samt örugg­lega eftir að sakna þessarar skuld­bindingar líka, þetta verður alls konar.

Ef ég ætti að velja eitt­hvað eitt orð yfir minn feril þá væri það bara orðið „skemmti­legt.“ Ég reyndi bara að hafa gaman, alltaf, því mér finnst gaman að hafa gaman. Það er bara fólkið sem maður kynntist sem stendur upp úr og situr eftir hjá manni eftir þetta allt saman.“

Fór þetta á gleðinni

Fann­dís átti sér aldrei stóra drauma tengda fót­boltanum sem krakki. Fót­boltinn heillaði hana hins vegar og innan íþróttarinnar á hún óum­deilan­lega heima.

„Hlutirnir gerðust bara af því að ég hafði gaman að þessu, lagði mig fram af því að þetta var skemmti­legt og mér fannst gaman að vinna. Þannig gerðust hlutirnir fyrir mig, ekki af því að ég var með svo há­leit mark­mið eða eitt­hvað svo­leiðis. Það hentaði mér ekki. Ég fór þetta meira á gleðinni. Ég fann hvað það gaf mér mikið þegar að það gekk vel, fann að ég var búin að leggja á mig vinnuna og upp­skar alls konar. Það ein­kennir mig og minn feril.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×