Erlent

Evrópa þurfi að vera búin undir aðra stór­styrj­öld

Kjartan Kjartansson skrifar
Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, í heimsókn sinni í Berlín í gær, 11. desember 2025.
Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, í heimsókn sinni í Berlín í gær, 11. desember 2025. Vísir/EPA

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins varaði Evrópuríki við því í gær að þau þyrftu að vera búin undir stríð af þeirri stærðargráðu sem fyrri kynslóðir máttu þola. Rússar gætu háð stríð á hendur Evrópu innan fimm ára.

Ummælin lét Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, falla í ræðu á vettvangi München-öryggisráðstefnunnar þegar hann heimsótti Berlín í gær. Þar lýsti hann Evrópu sem næsta skotmarki Rússlands og að hún væri þegar í skotlínunni.

„Rússland hefur komið með stríð aftur í Evrópu og við verðum að vera búin undir stríð af þeirri stærðargráðu sem afar okkar og ömmur og langafar okkar og langömmur þurftu að þola,“ sagði Rutte og vísaði þar augljóslega til heimsstyrjaldanna tveggja á 20. öldinni.

Tugir milljóna manna féllu í heimstyrjöldunum tveimur í Evrópu. Áætlað er að fimmtán til tuttugu milljónir hafi fallið í álfunni í síðari heimsstyrjöldinni frá 1939 til 1945, tvöfalt fleiri en í þeirri fyrri sem geisaði frá 1914 til 1918.

Þrátt fyrir að ríki Evrópu hafi að undanförnu lagt aukna áherslu á öryggis- og varnarmál í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og blendingshernaðs þeirra í Evrópu varaði Rutte við því að of margir væru værukærir.

„Of margir átta sig ekki á hversu aðkallandi það er og of margir telja að við höfum tímann með okkur í liði. Hann er það ekki. Núna er tími aðgerða,“ sagði Rutte.

Pútín verji stolt sitt með blóði eigin þegna

Rússar hafa nú háð allsherjarstríð gegn Úkraínu í að nálgast fjögur ár og verið beinir þátttakendur í átökunum í austurhluta landsins í meira en áratug. Öllu hagkerfi landsins hefur verið umturnað til þess að styðja stríðsvélina í Úkraínu.

Það er ekki síst þess vegna sem Atlantshafsbandalagið og evrópskir ráðamenn óttast að Rússar gætu beint spjótum sínum að Evrópuríkjum þegar stríðinu í Úkraínu lýkur.

Rutte sagði að þetta gæti gerst fyrr en marga gruni.

„Varnir NATO geta haldið í bili en með hagkerfi sem þjónar stríði gæti Rússland verið tilbúið að beita hervaldi gegn NATO innan fimm ára.“

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hefði þegar sýnt það og sannað að hann væri tilbúinn að fórna lífum ógrynni rússneskra hermanna.

„Pútín greiðir fyrir stolt sitt með blóði eigin þegna. Ef hann er reiðubúinn að fórna venjulegum Rússum á þennan hátt, hvað er hann tilbúinn að gera okkur?“ spurði framkvæmdastjórinn.

Háðir aðstoð Kínverja

Benti Rutte jafnframt á hlutdeild Kínverja í að ílengja stríðið í Úkraínu. Rússar fengju meirihluta rafeindabúnaðar í dróna sína þaðan. Kínversk tækni væri oft í þeim vopnum sem Rússar notuðu til þess að drepa úkraínska óbreytta borgara.

„Kína er líflína Rússland. Án kína gæti Rússland ekki haldið áfram að heyja þetta stríð,“ sagði Rutte.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×