Innlent

Sam­einingu Dalabyggðar og Húnaþings vestra hafnað

Lovísa Arnardóttir skrifar
Björn Bjarki er sveitarstjóri í Dalabyggð. Niðurstaðan var afgerandi í báðum sveitarfélögum.
Björn Bjarki er sveitarstjóri í Dalabyggð. Niðurstaðan var afgerandi í báðum sveitarfélögum. Samsett

Sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra var hafnað í íbúakosningu sem fór fram 28. nóvember – 13. desember 2025.

Í tilkynningu á vef Dalabyggðar kemur fram að þar hafi 60 prósent hafnað og í Húnaþingi vestra hafi 73,8 prósent hafnað.

Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri í Dalabyggð, segir enga sigurvegara eða tapar í þessu, lýðræðið hafi talað.

„Nú hafa íbúarnir talað og sýnt fram sinn skýra vilja. Það er niðurstaðan, lýðræðið hefur talað. Það eru hvorki sigurvegarar eða taparar í þessu. Þetta er tilraun sem tekin og gott samtal við nágranna okkar en þetta var niðurstaðan og afgerandi beggja vegna.“

Hann segir niðurstöðuna ekki endilega óvænta en hann hafi átt von á því að það yrði mjórra á munum.

„Þetta var beggja blands, ég hélt kannski að það yrði mjórra á mununum í hvora áttina sem var. En þetta var afgerandi og nú bara höldum við áfram, lífið hefur sinn vanagang að nýju.“

Hann segir það hafa verið samdóma álit beggja sveitarstjórna að reyna þetta en vilji íbúa sé skýr og lýðræðið sé að virka.

Afgerandi afstaða

Alls er í Dalabyggð 541 íbúi á kjörskrá. 326 kjósendur greiddu atkvæði. Já sögðu 125 (38,34%) og nei sögðu 196 (60,12%). Auðir og ógildir seðlar voru 5 (1,54%). Sameiningu var því hafnað.

Í Húnaþingi vestra voru 981 íbúar á kjörskrá. 607 kjósendur greiddu atkvæði. Já sögðu 147 (24,2%) og nei sögðu 448 (73,8%). Auðir og ógildir seðlar voru 12. Sameiningu var því hafnað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×