Fótbolti

Hákon fann skotskóna í fyrsta sinn síðan í októ­ber

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson fagnar hér langþráðu marki sínu fyrir Lille í kvöld.
Hákon Arnar Haraldsson fagnar hér langþráðu marki sínu fyrir Lille í kvöld. Getty/Franco Arland

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Hákon Arnar Haraldsson var á skotskónum með Lille í frönsku deildinni í dag. Það gekk mikið á í skrautlegum leik sem bauð upp á sjö mörk og fjögur rauð spjöld.

Lille missti mann af velli í fyrri hálfleik en náði að tryggja sér dramatískan sigur á lokamínútunum. Bæði lið enduðu síðan með níu menn inni á vellinum.

Hákon kom Lille í 1-0 strax á níundu mínútu en liðsfélagi hans, Nathan Ngoy, fékk síðan beint rautt spjald á 38. mínútu.

Lassine Sinayoko jafnaði metin manni fleiri á 57. mínútu en þremur mínútum síðar missti Auxerre líka mann af velli.

Chancel Mbemba varð síðan fyrir því að setja boltann í eigið mark á 66. mínútu og koma Auxerre yfir í 2-1.

Hákon var tekinn af velli ásamt Olivier Giroud á 75. mínútu og tveimur mínútum síðar náði Nabil Bentaleb að jafna metin fyrir Lille.

Soriba Diaoune skoraði síðan þremur mínútum síðar og Lille var búið að snúa leiknum sér í sag.

Lassine Sinayoko jafnaði í 3-3 á 83. mínútu með marki úr víti en Benjamin André skoraði sigurmark Lille á 86. mínútu.

Romain Perraud hjá Lille og Oussama El Azzouzi hjá Auxerre fengu svo báðir rauða spjaldið á 88. mínútu og liðin enduðu því leikinn níu á móti níu. Mörkin urðu þó ekki fleiri og Lille landaði dramatískum sigri.

Lile-mönnum tókst að komast upp í þriðja sætið með þessum frábæra endakafla sínum.

Þetta var fyrsta mark Hákons í sjö deildarleikjum eða síðan hann skoraði á móti Metz í lok október.

Hákon er nú kominn með fimm mörk og tvær stoðsendingar í fimmtán deildarleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×