Innlent

Skýrslan ekki til neins ef ekki verði brugðist við

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hafsteinn Númason vonar að skýrslan verði til þess að brugðist verði við.
Hafsteinn Númason vonar að skýrslan verði til þess að brugðist verði við.

Faðir sem missti þrjú börn í snjóflóðinu á Súðavík árið 1995 segir nýja skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem kynnt var í dag ekki til neins ef ekki verði brugðist við henni. Hann segir ekki dag líða þar sem hann hugsi ekki til dagsins örlagaríka í janúar þetta ár, stjórnvöld hafi með því að neita að horfast í augu við ábyrgð látið eins og fráfall íbúa í Súðavík hafi ekki skipt neinu máli.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Sýnar í kvöld en rætt var við Hafstein Númason sem missti þrjú börn í snjóflóðinu þann 16. janúar 1995. Fjórtán fórust í flóðinu, þar af átta börn. Líkt og fram hefur komið var skýrsla nefndarinnar birt í dag en nefndin var skipuð fyrir rétt rúmu ári síðan. Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að skýrsla um varnargarða, sem tilbúin var sumarið 1993 hafi ekki verið fylgt eftir.

Einnig hvernig hættumat snjóflóða hafi í raun orðið að pólitískum málum í sveitarstjôrnum almennt og menn haft áhyggjur af skipulagsmálum og verðfalli fasteigna. Nefndarmaður rannsóknanefndar sagði tíðarandann hafa verið að gera lítið úr hættu og draga í efa hættulínu snjóflóða. Einnig segir að almannavarnarnefnd ríkisins hafi ekki fengið upplýsingar um snjóflóðahættu á ytra svæði bæjarins. Þá standa orð gegn orði um hvort þær upplýsingar hafi borist sveitarstjóra og lögreglustjóra. Ljóst er þó að ekki vöru öll hús á hættusvæði rýmd.

Verði að vera uppgjör

Í kvöldfréttum Sýnar í kvöld segir Hafsteinn að það litla sem hann hafi náð að skoða í skýrslu rannsóknarnefndarinnar lofi góðu. Íbúar hafi barist fyrir því í þrjátíu ár að skýrsla af þessu tagi verði unnin.

„Ég veit eiginlega ekki hvað á að segja, maður er að vonast til að þetta verði uppgjör. Að það komi allt fram sem þarf að koma fram. Það sem við fórum fram á er að fá sannleikann fram eins og hann er. Stjórnvöld eru búin að móast við í þrjátíu ár,“ segir Hafsteinn sem segir ekki eðlilegt að þurfa að standa í stríði í svo langan tíma til að ná fram slíkri rannsókn.

Rifjast þetta allt saman aftur upp þegar svona skýrsla kemur fram og þú sérð þessar myndir? Hvernig líður þér með það allt saman?

„Maður dettur alveg inn í þetta, þetta er erfitt en málið er að það hefur varla liðið sá dagur í þessi þrjátíu ár að maður hefur ekki hugsað um þetta. Því að þetta hefur skipt mann máli. Með því að neita okkur um rannsókn og fá hlutina fram eins og þeir voru, til þess að taka á málinu, þá eru stjórnvöld að segja að það skipti aldrei neinu máli hvort þau lifðu eða dóu þetta fólk sem var þarna. Eins og hann sagði áðan, formaður nefndarinnar, að það sé búið að taka þennan tíma....og það hefur verið reynt að tala þetta niður.“

Hafi aldrei viðurkennt mistök

Hafsteinn segir þá staðreynd sem komi fram í skýrslunni um að hættumatskort hafi ekki sýnt öll hús í byggðinni ekki slá hann meira nú heldur en það hafi gert í upphafi.

„Því maður var búinn að sjá þetta strax í upphafi. Og það var svo táknrænt á sínum tíma þegar Ómar Ragnarsson kom fram í fréttatíma, hann dró fram línu og sagði: Hérna er ég á hættusvæði og svo stóð hann í hinn fótinn. Nú er ég ekki á hættusvæði,“ segir Hafsteinn.

Hann bendir á að nefnt sé í skýrslunni að fallið hafi snjóflóð á hús á Súðavík 1983. Þar hafi það farið á miðjan vegg og íbúi neglt fyrir glugga af hræðslu.

Vonastu til þess að það verði brugðist við þessari skýrslu, að það verði eitthvað framhald á þessu?

„Hún er ekki til neins skýrslan ef það er ekki tekið á því og unnið út frá því,“ segir Hafsteinn sem bendir á að formaður nefndarinnar Finnur Þór Vilhjálmsson héraðsdómari hafi bent á í kvöldfréttum Sýnar að snjóflóðavarnakerfið hafi verið stokkað upp í kjölfar atburðanna í Súðavík.

„Hvað segir það okkur? Það segir okkur hreint út að allt kerfið var ekki í lagi. Þeir stokkuðu upp en það eru aldrei viðurkennd mistök.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×