Handbolti

„Fannst við bara lé­legir í kvöld“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Freyr Aronsson skoraði fjögur mörk fyrir Hauka í kvöld.
Freyr Aronsson skoraði fjögur mörk fyrir Hauka í kvöld. Vísir/Vilhelm

„Þetta er mjög svekkjandi og mér fannst við bara lélegir í þessum leik,“ sagði Freyr Aronsson, leikmaður Hauka, eftir tveggja marka tap liðsins gegn Fram í Olís-deild karla í handbolta í kvöld.

Haukar, sem voru á toppnum fyrir leik kvöldsins, tóku á móti Íslandsmeisturum Fram, í leik sem bauð upp á mikla dramatík.

Það voru að lokum Framarar sem höfðu betur, 25-27.

„Við áttum kafla sem voru fínir, en svo áttum við líka kafla þar sem við vorum mjög langt niðri. Þetta er bara mjög svekkjandi og bara leiðinlegt.“

Leikurinn var í járnum fram á síðustu sekúndur leiksins, þrátt fyrir að Freyr og félagar í Haukum hafi átt afar slakan kafla síðustu fimm til tíu mínútur leiksins. Hann segir að Haukarnir hafi verið sjálfum sér verstir.

„Já, klárlega. Við gerum mikið af mistökum. Þetta var kaflaskiptur leikur og við hittum kannski ekki alveg á kaflann okkar á réttum tíma. Við eigum bara að gera betur.“

Þá varð mikil ramatík undir lokin þegar Haukar freistuðu þess að stela boltanum til að jafna metin á lokasekúndunum. Það endaði þó með því að brotið var á Dánjali Ragnarssyni á miðjum velli og dómarar leiksins dæmdu víti og rautt spjald á Össur Haraldsson, sem fór eðlilega ekki vel í heimamenn.

„Ég sá hvorugt atvikið,“ sagði Freyr, en í síðustu sókn Hauka í leiknum var einnig dæmdur ruðningur á Adam Hauk Baumruk.

„Ég var að hlaupa út af og veit ekki hvað gerðist hjá Adami og síðan sá ég ekki hitt heldur. Ég veit ekki hvað hann var að dæma á. Ég verð bara að skoða þetta betur, en það er ekki hægt að gera neitt í þessu núna,“ sagði heldur yfirvegaður Freyr.

Hann segir þó einnig að Haukarnir ætli sér að snúa genginu við fyrir jóla- og EM-pásuna löngu.

„Við munum nýta hana mjög vel, en við eigum auðvitað bikarleik á móti HK eftir. Við ætlum bara á fullu gasi inn í hann og svara fyrir þennan leik,“ sagði Freyr að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×