Skoðun

Sam­göngumálið sem ríkis­stjórnin talar ekki um

Marko Medic skrifar

Sem íbúi utan höfuðborgarsvæðisins verð ég að velta fyrir mér hvort ríkisstjórnin viti að það eru til Íslendingar sem búa ekki í Reykjavík.

Vegagerðin hefur kynnt nýja áætlun um almenningssamgöngur á landsbyggðinni sem á að taka gildi 1. janúar næstkomandi. Því miður felur þessi áætlun í sér verulegar skerðingar sem munu hafa neikvæð áhrif á stóran hóp fólks á landsbyggðinni, bæði hvað varðar menntun, atvinnu og daglegt líf.

Tvær leiðir standa þar sérstaklega upp úr vegna alvarlegra áhrifa: leið 55 (Keflavík – BSÍ) og leið 81 (Borgarnes – Reykholt). Á leið 81 er fyrirhugað að fækka ferðum úr daglegum ferðum alla virka daga niður í aðeins þrjá daga í viku, mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga. Fyrir íbúa Reykholts þýðir þetta að reglulegar og öruggar samgöngur hverfa nánast með öllu.

Á leið 55 eru fyrirhugaðar breytingar sem fela í sér að strætóskýlum í Reykjanesbæ verður fækkað úr átta niður í tvö. Afleiðingin er sú að tvö stór hverfi, Keflavík og Ásbrú, verða án strætóskýla. Íbúar þessara hverfa þurfa þá að ganga í meira en klukkustund til að komast að næstu stoppistöð. Það getur varla talist raunhæfur kostur fyrir nemendur, eldra fólk eða þá sem treysta á almenningssamgöngur í daglegu lífi.

Svo á að fresta brottför leiðar 55 frá Reykjavík til Reykjaness, þar á meðal Reykjanesbæjar, Vogafleggjara og Grindavíkurafleggjara, um tvær klukkustundir – úr kl. 14 í kl. 16. Þetta setur nemendur og atvinnufólk í erfiða stöðu, þar sem valkostirnir verða í raun aðeins tveir: að bíða í tvo auka tíma eftir ferð heim eða kaupa sér miða í strætó á höfuðborgarsvæðinu og skipta um leiðir til að komast til Hafnarfjarðar.

Afleiðingar þessarar áætlunar eru augljósar. Hún mun takmarka aðgang að menntun, draga úr atvinnutækifærum og fæla grunn- og framhaldsskólanemendur sem búa á landsbyggðinni frá því að sækja nám á höfuðborgarsvæðinu. Umhverfisáhrifin, sem stjórnvöld elska að tala um, eru einnig neikvæð þar sem íbúar landsbyggðarinnar eru síður líklegir til að eiga rafbíla en íbúar höfuðborgarsvæðisins.

Áætlunin gengur jafnframt þvert gegn menntunarstefnu stjórnvalda til 2030, þar sem skýrt er tekið fram að búseta eigi ekki að hafa áhrif á möguleika fólks til náms og að bæta eigi samgöngur til að tryggja jafnan aðgang að menntun, óháð búsetu.

Reykjanesbær er sveitarfélag með um 25.000 íbúa, sambærilegt að stærð við Garðabæ og Seltjarnarnes samanlagt, á um 10 ferkílómetra svæði. Þetta er einn af stærri bæjum landsins.

Ég hef rætt þessi mál við alþingismenn úr Miðflokknum, Framsóknarflokknum, Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn. Allir lýstu þeir yfir andstöðu við áætlunina og áhyggjum, líkt og bæjarstjórnir í Reykjanesbæ og Borgarnesi. Ég reyndi að ná sambandi við innviðaráðherra, forsætisráðherra og menntamálaráðherra en fá voru svörin. Sú þögn talar sínu máli.

Að lokum hefur Hilmar Stefánsson, forstöðumaður almenningssamgangna hjá Vegagerðinni, bent á að nauðsynlegt sé að fækka stoppistöðvum til að spara fé. Maður verður að setja spurningamerki við þær fullyrðingar á meðan ráðherrar tilkynna okkur reglulega um verkefni í útlöndum sem þeir eru að styrkja um hundruði milljóna.

Það er því eðlilegt að spyrja hvort forgangsröðun stjórnvalda sé rétt, þegar atvinna, menntun og samgöngur fólks á Íslandi virðast víkja.

Ég segi allavega: Ísland fyrst, svo allt hitt.

Höfundur er nemandi í Fjölbrautaskóla í Garðabænum, býr á Reykjanesi. 




Skoðun

Sjá meira


×