Erlent

Nick Reiner á­kærður fyrir að myrða for­eldra sína

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rob Reiner og Michele ásamt dóttur sinni Romy Reiner sem kom að þeim látnum, Nick Reiner sem talinn er hafa myrt þau og Mariu Gilfillan eiginkonu Jack Reiner sonar þeirra lengst til hægri. Myndin er tekin á frumsýningu Spinal Tap II í Los Angeles 9. september síðastliðinn.
Rob Reiner og Michele ásamt dóttur sinni Romy Reiner sem kom að þeim látnum, Nick Reiner sem talinn er hafa myrt þau og Mariu Gilfillan eiginkonu Jack Reiner sonar þeirra lengst til hægri. Myndin er tekin á frumsýningu Spinal Tap II í Los Angeles 9. september síðastliðinn. Michael Buckner/Variety via Getty Images

Nick Reiner hefur verið ákærður fyrir að myrða foreldra sína þau Rob og Michele Reiner. Þetta tilkynnti héraðssaksóknarinn Nathan Hochman í Los Angeles borg á blaðamannafundi nú í kvöld en Nick er talinn hafa notað hníf til verksins.

Líkt og fram hefur kom dóttir hjónanna að þeim látnum síðdegis á sunnudag. Greint hefur verið frá því að kvöldið áður hafi þau verið í jólateiti hjá Conan O'Brien ásamt syni sínum. Erlendir miðlar hafa fullyrt að hann hafi þar látið furðulega og skotið gestum skelk í bringu með hegðun sinni. Hann hafi þar rifist við foreldra sína.

Gæti numið lífstíðarfangelsi

Í máli héraðssaksóknarans í kvöld kemur fram að Nick Reiner verði ákærður fyrir morð af fyrstu gráðu. Refsingin gæti numið lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn. Þá er í ákærunni nefndar „sérstakar aðstæður“ vegna nokkurra morða, sem gerir það að verkum að mögulega yrði hægt að krefjast dauðarefsingar. Saksóknarinn segir að enn hafi engin ákvörðun verið tekin um að fara fram á það. Kaliforníuríki hefur ekki beitt slíkum refsingum síðan árið 2019.

Hochman segir að Nick verði færður fyrir dómara í dag eftir að ákæra hefur verið gefin út og hann hafi undirgengist geðmat. Það ferli sé nú í gangi og að því loknu muni honum verða birt ákæra. 

Veitti engan mótþróa

Fram hefur komið að sonurinn hafi verið handtekinn án þess að veita mótþróa nálægt háskólasvæði USC í Los Angeles, um nítján kílómetra fjarlægð frá heimili foreldra sinna. Saksóknarinn segir að Nick hafi fundist þökk sé góðu starfi rannsóknarlögreglu og bandarísku alríkislögreglunnar. Hann vildi þó ekki gefa upp frekari upplýsingar sem gætu spillt fyrir rannsókninni. Þá var hann spurður út í mögulega fíkniefnaneyslu Nick en gaf engin svör. 

Þá biðlaði hann til almennings um að trúa ekki gróusögum vegna málsins og reiða sig frekar á opinberar upplýsingar frá yfirvöldum. Nick hefur sjálfur verið opinskár með þá neyslu og hafa erlendir miðlar fullyrt að foreldrar hans hafi haft miklar áhyggjur af líðan hans og hegðun í aðdraganda morðanna. Þá gerðu feðgarnir saman bíómyndina Being Charlie árið 2015 sem byggði að miklu leyti á ævi hans og fjallaði um táning sem var háður fíkniefnum og erfiða leið hans að bata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×