Handbolti

Valdi ekki eigin leik­mann í lands­liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sænski markvörðurinn Tobias Thulin missir af Evrópumóti á heimavelli þrátt fyrir að spila fyrir landsliðsþjálfarann með félagsliði sínu.
Sænski markvörðurinn Tobias Thulin missir af Evrópumóti á heimavelli þrátt fyrir að spila fyrir landsliðsþjálfarann með félagsliði sínu. Getty/Michael Campanella

Liðin sem taka þátt í Evrópumóti karla í handbolta eru farin að tilkynna stórmótshópa sína og íslenski EM-hópurinn verður opinberaður á morgun. Svíar hafa gefið út sinn hóp og þar þurfti sænski landsliðsþjálfarinn að taka óvenjulega ákvörðun.

Michael Apelgren er þjálfari sænska karlalandsliðsins í handbolta en hann þjálfar einnig Janus Daða Smárason og félaga hjá pólska félaginu Pick Szeged.

Þrátt fyrir þá staðreynd ákvað Apelgren að velja ekki fastamanninn í landsliðinu, markvörðinn Tobias Thulin, sem hann þjálfar hjá Pick Szeged.

„Auðvitað varð hann fyrir vonbrigðum,“ segir Apelgren eftir að EM-hópurinn var kynntur. Það þarf reyndar ekki að koma mikið á óvart að Svíar búi vel þegar kemur að markvörðum.

Ein af stóru spurningunum fyrir Evrópumótið í handbolta hefur verið hvaða markvarðatríó myndi landsliðsþjálfarinn Michael Apelgren velja.

Andreas Palicka, fyrirliði og fastamaður í landsliðinu undanfarin ár, hefur glímt við meiðsli í haust. Mikael Appelgren hefur heillað síðan hann flutti til ungverska liðsins Veszprém.

Auk þess hefur Tobias Thulin einnig verið fastamaður í markvarðatríóinu síðustu fjögur ár á meðan bæði Fabian Norsten og Simon Möller eru framtíðarmenn.

Michael Apelgren valdi Palicka, Appelgren og Norsten.

„Við völdum einfaldlega þá sem hafa staðið sig best. Appelgren er aðalmarkvörður Veszprém og hefur staðið sig best í haust, Norsten hefur staðið sig vel hjá Aalborg og Palle er Palle. Svo voru plássin búin,“ sagði Apelgren.

„Auðvitað varð hann fyrir vonbrigðum en hann er mjög góður maður. Þannig að það var ekkert vesen með það,“ sagði Apelgren.

Svíþjóð hefur leik á mótinu þann 17. janúar gegn Hollandi í Malmö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×