Lífið

Rúss­land aftur í Euro­vision - undir­skriftarsöfnun

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Sif Sigmarsdóttir er með vikulega pistla á Vísi.
Sif Sigmarsdóttir er með vikulega pistla á Vísi. Getty/Vísir

Þegar þetta er skrifað stend ég frammi fyrir félagslega flóknu úrlausnarefni.

Við hlið mér í „þögla rými“ skrifstofunnar, þar sem ég leigi borð, situr ungur maður með yfirvararskegg og derhúfu og fundar hátt með kollegum á tölvuskjá, eins og hann sé persóna í bókinni Palli var einn í heiminum 2, þar sem Palli er tuttugu árum eldri og farinn að vinna í sprotageiranum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Palli stundar slíkt „manspreading“ og marka sér svæðið með raddfærunum.

Ég skelf af löngun til að hella mér yfir hann.

En þótt höfuðið sé fullt af ofstækisfullum athugasemdum í líkingu við þær sem sjást í ummælakerfum á internetinu, bít ég í tunguna á mér.

Ástæðan er þó hvorki kurteisi né friðarást.

Hvað svo?

Vika er frá því að tilkynnt var að Ísland tæki ekki þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva á næsta ári, því ljóst þætti „miðað við opinbera umræðu hér á landi“ að hvorki myndi „ríkja gleði né friður“ um þátttökuna.

„Til hamingju Ísland,“ kvað við.

En hvað svo?

Meiri þögn en þeir ætluðu sér

Um tíma virtist sem friður fyrir botni Miðjarðarhafs ylti á því að Ísland segði sig úr Eurovision. En eins og svo oft þegar manni verður að ósk sinni er niðurstaðan antiklímax.

Mótmæli fyrir utan höfuðstöðvar Rúv í byrjun mánaðar.Vísir/Vilhelm

Sniðgöngusinnar kröfðust þess að söngurinn þagnaði. Þeir uppskáru þó ef til vill meiri þögn en þeir ætluðu sér. Málstaðurinn er nú eins og maður sem kleif Everest; þótt hann hafi átt hug þjóðarinnar á leiðinni upp nennir enginn að fylgjast með honum á leiðinni niður.

Næsta þrekverki, annað óréttlæti krefst athygli okkar.

#awkward

Því er gjarnan haldið fram að undirstaða siðmenningarinnar sé siðferðið – einhvers konar innri hvöt sem knýr okkur til að vera dönnuð og breyta rétt.

Þar sem ég sit á skrifstofunni, og berst við að hreyta ekki ónotum í sessunaut minn sem þverbrýtur umgengnisreglur skrifstofunnar, velkist ég ekki í vafa um að sú kenning sé röng.

Það er ekki siðferðisþrek sem aftrar mér frá því að rjúka á Palla. Það sem heldur aftur af mér er viðkvæmni mín fyrir vandræðakennd: Ég nenni ekki að þurfa að fara hjá mér í hvert sinn sem ég rekst á Palla við kaffivélina. #awkward

Dýrmætt tækifæri til árekstra

Rússlandi var vísað úr Eurovision í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Ýmsir hafa furðað sig á að Ísraelar hafi ekki hlotið sömu refsingu vegna framgöngu sinnar í Gaza. Því hversu vandræðalegt er það að þurfa að deila sviði með pallíettuklæddum fulltrúa ríkis sem er í miðju kafi að fremja þjóðarmorð?

En það er einmitt þar sem raunverulegt virði Eurovision liggur – handan skemmtanagildisins, í lamandi vandræðalegheitunum.

Í mannlegu samfélagi er það viðleitni okkar til að koma í veg fyrir vandræðalegar uppákomur sem heldur mörgum af okkar lægstu hvötum í skefjum. Þótt það fælist stundarfróun í því að hreyta svívirðingum í samstarfsfólk eða setja hundaskít í póstkassa nágrannans sem ryksugar aldrei stigaganginn þegar röðin er komin að honum, yrði andrúmsloftið á kaffistofunni og næsta húsfundi óbærilegt.

Með því að víkja Rússum og Ísraelum úr keppni glatast dýrmætt tækifæri til árekstra. Hversu vandræðalegt er það fyrir keppendur landanna þegar áhorfendur púa á þá? Hvað hugsar almenningur sem situr heima og verður vitni að slíkum viðtökum fulltrúa sinna?

Ekkert ríki lætur af stríðsbrölti þótt púað sé á það í Eurovision. Slík viðbrögð vekja þó án efa upp vandræðalegar spurningar heima fyrir.

RÚV þótti hin opinbera umræða svipta Eurovision gleði og friði. Ákvörðun RÚV sviptir okkur hins vegar hinni opinberu umræðu sem fylgir keppninni.

Stjórn Rúv fundaði um þátttöku Íslands í Eurovision í byrjun mánaðar.Vísir/Vilhelm

Eru Íslendingar betur settir nú þegar íslenskir foreldrar losna við vandræðaleg samtöl við börn sín yfir Eurovision um stjórnmálaástandið í aðildarríkjum Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva? Er íslensk þögn áhrifameiri gagnrýni á framgöngu Ísraels en hið dásamlega óskammfeilna uppátæki Hatara í Eurovision árið 2019, sem olli vandræðalegu andrúmslofti víða um lönd?

Í stað þess að segja okkur frá Eurovision ættum við að íhuga að hefja heldur undirskrifasöfnun til stuðnings þess að Rússum verði hleypt aftur inn.


Tengdar fréttir

Ísraelar fá að vera með í Eurovision

Fulltrúar evrópska sjónvarpsstöðva samþykktu í dag að leyfa Ísraelum að taka þátt í Eurovision í Vínarborg í Austurríki. Mikill meirihluti samþykkti nýjar reglur um söngvakeppnina en þær breytingar fólu í sér þátttöku Ísraela.

Ísland verður ekki með í Eurovision

Ísland verður ekki með í Eurovision á næsta ári. Þetta tilkynntu stjórnarformaður Rúv og útvarpsstjóri að loknum fundi stjórnar Ríkisútvarpsins. Útvarpsstjóri sagðist hafa tekið ákvörðun um þetta og tilkynnt stjórninni í dag sem ætlaði sér að leggja fram tillögu sama efnis.

„Ég nenni ekki að hlusta á 7. október rökstuðninginn enn og aftur“

Stjórn Ríkisútvarpsins tekur ákvörðun á stjórnarfundi á fundi sínum sem hefst klukkan 15 hvort Ísland muni draga sig úr keppni í ár. Boðað hefur verið til samstöðufundar við RÚV klukkan hálf þrjú þar sem stjórn stofnunarinnar er hvött til að sniðganga Eurovision. Páll Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmaður, hvetur stjórnina til að taka ekki þátt. 

Breyta reglum um at­kvæða­greiðslu og kynningu laga í Euro­vision

Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, hefur kynnt ýmsar nýjar reglur um atkvæðagreiðslu og kynningu laga sem taka þátt í Eurovision sem eiga að tryggja hlutleysi. Reglurnar verða ræddar á fundi þátttökuþjóða í desember og eru viðbragð við áhyggjum margra þjóða af afskiptum Ísraela af atkvæðagreiðslu í fyrra. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.