Neytendur

Hægt að spara háar fjár­hæðir í jóla­inn­kaupum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Almennar vöruhækkanir í verslanakeðjum samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ frá því í desember í fyrra og þar til desember í ár.
Almennar vöruhækkanir í verslanakeðjum samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ frá því í desember í fyrra og þar til desember í ár. Vísir/Hjalti

Hagstæðast er að gera jólainnkaupin í Prís samkvæmt verðlagskönnun ASÍ. Hagfræðingur samtakanna ráðleggur fólki að gera verðsamanburð áður en ráðist er í stórinnkaup því oft geti munað um háar fjárhæðir. Súkkulaði hækkar mest milli ára.

Verðlagseftirlit ASÍ mældi verðlag í helstu matvörukeðjum nú í desember. Ágúst Arnórsson hagfræðingur hjá ASÍ segir að fólk geti sparað háar fjárhæðir með því að gera verðsamanburð fyrir jólainnkaupin.

Ágúst Arnórsson hagfræðingur hjá ASÍVísir

„Í verðkönnun sem við gerum berum við saman vörur sem eru til hjá fleirum en þremur aðilum.  Í flestum tilvikum þar er Prís ódýrasta verslunin,“ segir Ásgeir. 

Verð í Bónus og Krónunni var um tveimur til þremur prósentum hærra.

„Það borgar sig að gera verðsamanburð áður en ráðist er í stórinnkaup. Við erum með mjög metnaðarfulla greiningarsíðu á verdlagseftirlit.is,“ segir Ásgeir. 

Almennar vöruhækkanir verslana á árinu

Almennt hafa vörur í verslunum hækkað talsvert milli ára. Þannig hefur verð í Iceland hækkað um rúmlega tólf prósent, Extra um tíu prósent en flestar aðrar verslanir um og yfir sex prósent. Bónus hækkaði um 3,9 prósent og Krónan um 3,6 prósent. Krambúðin hækkar minnst milli ára eða um rúm tvö prósent. 

Egg hækka um ríflega tólf prósent milli ára og kjöt hækkar frá sex prósentum upp í tíu prósent. 

Hækkun einstaka vöruflokka á árinu samkvæmt ASÍ.Vísir/Hjalti

Súkkulaði hækkar 

Nokkuð miklar hækkanir eru á einstaka vörumerkjum milli ára, þannig hækka vörur frá Sölufélagi garðyrkjumanna og Ölgerðinni um sex prósent, Stjörnugrís um tæplega átta prósent og vörur frá Te og kaffi um ríflega ellefu prósent. 

Vörur frá Góu og og Lindu og Nói Síríus hafa hækkað um, um og yfir átján prósent en mesta hækkun á vörumerki er Lindor súkkulaði sem hækkaði um ríflega fjörutíu prósent milli ára. Í desember í fyrra var það jólakonfektið sem hafði hækkað einna mest milli ára. 

Dæmi um hækkanir milli ára samkvæmt ASÍ.Vísir/Hjalti

Ágúst telur hækkanir á súkkulaði umfram hækkanir á hráefni.

„Súkkulaðið hefur hækkað meira en hráefnið þegar við horfum á heimsmarkaðinn. Gallinn við samanburðinn er að það eru fáir aðilar á Íslandi sem framleiða súkkulaði,“ segir hann.

Mesta hækkun á einum vörulið milli ára er þó Malt og appelsín sem hækkaði um 75 prósent milli ára í Extra.

Umfram síðustu kjarasamninga

Ágúst segir hækkanirnar meiri en samið var um í Stöðugleikasamningnum 2024. Þar var samið um að laun hækkuðu um 3,25 prósent fyrsta árið en 3,5 prósent á ári eftir það til ársins 2028.

„Almennt hefur verð hækkað kringum fimm prósent frá því í desember í fyrra. Kjötvörur hækka mest frá sex prósentum og upp í ríflega átta prósent.  Grænmeti og grænkera vörur hafa þó hækkað minna. Hækkanirnar og verðbólgan núna er umfram það sem væntingar stóðu til í síðustu kjarasamningum og það er eitthvað sem við þurfum að horfa til í framhaldinu,“ segir Ágúst.


Tengdar fréttir

Verðlag lægst í Prís á átta algengum jólavörum

Samkvæmt mælingum verðlagseftirlitsins í desember mælist verðlag lægst í Prís á átta algengum jólavörum sem voru skoðaðar. Mandarínum, laufabrauði, smjör og rjóma, til dæmis. Einnig var kannað verð á konfekti, gosi og fleiri vörum. 

Jólakjötið töluvert dýrara í ár

Jólakjötið hefur hækkað töluvert milli ára samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ. Ódýrasta hamborgarhrygginn og hangikjötið má finna í verslunum Prís en lítill verðmunur er á kalkún milli verslana. Klassískar jólavörur eru dýrari en áður en veganmatur er ódýrari.

Jólabækurnar nær alltaf ódýrastar í Bónus

Bækur sem seldar eru í Bónus eru ódýrastar í 95 prósent tilfella samkvæmt úttekt verðlagseftirlits ASÍ 3. desember síðastliðinn. Í tilkynningu kemur fram að litlu muni á verði Bónus og Nettó, en Bónus hafi verið ódýrara í 117 af 120 samanburðum milli þeirra tveggja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×