Fótbolti

Bíður eftir kallinu frá Arnari: „Myndi segja að ég væri klár“

Aron Guðmundsson skrifar
Viktor Bjarki Daðason hefur verið að vekja athygli með FC Kaupmannahöfn upp á siðkastið, bæði í danska boltanum sem og Meistaradeild Evrópu. Hann er klár í íslenska landsliðið þegar að kallið kemur frá Arnari Gunnlaugssyni
Viktor Bjarki Daðason hefur verið að vekja athygli með FC Kaupmannahöfn upp á siðkastið, bæði í danska boltanum sem og Meistaradeild Evrópu. Hann er klár í íslenska landsliðið þegar að kallið kemur frá Arnari Gunnlaugssyni Vísir/Samsett

Sau­tján ára gamli fram­herjinn Viktor Bjarki Daða­son, leik­maður FC Kaup­manna­hafnar, segist klár þegar kallið kemur frá Arnari Gunn­laugs­syni, lands­liðsþjálfara Ís­lands.

Viktor Bjarki hefur skotist ræki­lega fram á sjónar­sviðið með liði FC Kaup­manna­hafnar. Hann hefur fest sig i sessi í aðalliði félagsins, þrátt fyrir að vera aðeins sau­tján ára gamall, og komið að mörkum bæði heima fyrir sem og í Meistara­deild Evrópu, þar sem að hann sló meðal annars met sem var í eigu spænska ungstirnisins Lamine Yamal.

Ís­lendingurinn fetar þar með í fót­spor Ís­lenskra leik­manna á borð við Orra Stein Óskars­son, Há­kon Arnar Haralds­son og Ísak Berg­mann Jóhannes­son sem fóru allir ungir að árum til FC Kaup­manna­hafnar og unnu sig þar upp í aðalliðið. Þessi þrenning er svo að gera það gott núna í evrópska boltanum sem og með ís­lenska lands­liðinu.

Og nú þegar er nafn Viktors farið að bera á góma þegar talað er um ís­lenska karla­lands­liðið. Heyra mátti kallað eftir því að Arnar Gunn­laugs­son, lands­liðsþjálfari Ís­lands, ætti að velja Viktor í lands­liðið fyrr á árinu. Strákurinn ungi bíður ró­legur eftir kallinu en segist klár þegar þar að kemur.

„Það er alltaf planið,“ segir Viktor við Sýn um að spila fyrir lands­liðið og hvort hann sé klár nú þegar í það. „Sem leik­maður viltu alltaf komast eins hátt og langt og mögu­legt er á þínum ferli. Að spila fyrir A-lands­liðið, það er mjög hátt þarna uppi.

Auðvitað myndi ég segja að ég væri klár í að spila fyrir lands­lið Ís­lands en það er ekki bara undir mér komið að velja mig í liðið. Það er bara mitt plan að reyna spila vel með mínu liði og þá sjáum við hvað gerist.“

Hann hefur ekki átt samtöl við Arnar lands­liðsþjálfara til þessa en Skagamaðurinn veit af stráknum unga í Kaup­manna­höfn.

„Hann er virki­lega spennandi,“ svaraði Arnar að­spurður um álit sitt á Viktori Bjarka í byrjun nóvember er hann hafði opin­berað lands­liðs­hóp Ís­lands fyrir loka­verk­efni liðsins í undan­keppni HM.

„Það er ótrú­legt hver fram­gangur hans hefur verið síðustu mánuði, fara frá Fram í Bestu deildinni og vera kominn á stærsta sviðið í Meistara­deild Evrópu.“

„Hann á þetta skilið. Hann er með gott bak­land. Hann er einn af þessum ungu fram­herjum sem við eigum, sem eru að gera frábæra hluti. Við fylgjumst spenntir með hans framþróun.“

„Hans framtíð verður klár­lega björt ef hann sleppur við meiðsli og heldur áfram að standa sig vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×